[sam_zone id=1]

EM karla hefst á morgun

Enn annað stórmótið er nú að hefjast í blakinu og nú er komið að Evrópumóti karla 2021.

Nú stendur yfir EM kvenna en mótið hefur verið afar spennandi og boðið upp á mikla skemmtun. Áhorfendur hafa fyllt hallir víðs vegar um Evrópu og nú er komið að Evrópumóti karla. Karlamótið hefst á morgun, miðvikudaginn 1. september, og verður leikið með sama fyrirkomulagi og kvennamegin.

Riðlakeppnin fer fram í fjórum riðlum þar sem sex lið skipa hvern riðil. Keppnisþjóðirnar eru því 24 talsins og verður leikið í Póllandi, Tékklandi, Eistlandi og Finnlandi. Lokaleikir keppninnar fara fram á glæsilegum leikvangi í Katowice, Póllandi. Skiptinguna í riðla má sjá á mynd.

Riðlarnir á EM karla 2021

A-riðill

Þau tvö lið sem munu eflaust berjast um toppsæti A-riðils eru Pólland og Serbía. Pólverjar eru ríkjandi heimsmeistarar en hafa ekki unnið Evrópumeistaratitil frá því árið 2009, sem er jafnframt eini Evrópumeistaratitill þjóðarinnar í karlaflokki. Serbar eru hins vegar ríkjandi Evrópumeistarar og eru til alls líklegir. Belgía og Úkraína ættu að eiga góða möguleika á sæti í 16-liða úrslitum en róðurinn verður ansi þungur fyrir Portúgal og Grikkland.

B-riðill

Í B-riðli má sjá stórlið Ítalíu sem og lið Slóveníu og Búlgaríu. Ítalir sætta sig ekki við annað en sigur í þessum riðli en bæði Slóvenía og Búlgaría gætu hæglega komið á óvart og barist um efsta sætið. Heimamenn í Tékklandi eru líklegastir til að hreppa 4. sæti riðilsins en Svartfjallaland og Hvíta-Rússland ættu að gera þeim erfitt fyrir. Baráttan um 4. sætið ætti því að verða æsispennandi í riðlinum en efstu þrjú sætin fara líklega til Ítalíu, Slóveníu og Búlgaríu.

C-riðill

Stórveldi Rússlands mætir til leiks í C-riðli þar sem þeir eru fyrirfram taldir langbesta lið riðilsins. Þeir verða þó án nokkurra lykilmanna sem gæti gert þeim erfitt fyrir þegar líður á keppnina. Þegar litið er á hin fimm lið riðilsins er erfitt að segja til um hverjir séu líklegastir til að fara áfram með Rússunum. Finnar hafa heimavöllinn með sér og Holland hefur leikið vel undanfarið en Tyrkland hefur alltaf staðið í stóru þjóðunum.

Lið Norður-Makedóníu og Spánar gætu verið þau lið sem þurfi að vinna hvað mest fyrir sæti í 16-liða úrslitunum en bæði lið hafa verið á uppleið síðustu ár og gætu komið á óvart á mótinu.

D-riðill

Nýkrýndir Ólympíumeistarar Frakka eru aðalmennirnir í D-riðlinum og ættu að fljúga inn í útsláttarkeppnina. Þar á eftir koma Þjóðverjar en heimamenn í Eistlandi vilja eflaust bæta upp fyrir arfaslakan árangur á síðasta Evrópumóti. Þar tapaði liðið öllum leikjum sínum og lauk keppni í 24. sæti af 24 liðum. Slóvakía mætti til leiks á síðasta Evrópumóti og er líklegt til að ná 3. eða 4. sætinu en Lettland og Króatía þurfa nánast á kraftaverki að halda til að komast í 16-liða úrslitin.

Fyrstu leikir

Eins og áður sagði hefst mótið á morgun, þann 1. september, en þá fara fram tveir leikir. Í Finnlandi mæta heimamenn liði Norður-Makedóníu en í Eistlandi verður sannkallaður nágrannaslagur þegar Eistland mætir Lettlandi. Á fimmtudag og föstudag fer keppni svo á fullt í öllum riðlum.

Hægt er að horfa á beinar útsendingar af öllum leikjum á streymissíðu CEV, EuroVolleyTV. Mánaðaráskrift kostar tæpar átta evrur en einnig er hægt að kaupa aðgang sem gildir aðeins fyrir leiki á EM karla. Sú áskrift kostar einungis 5 evrur fyrir karlamótið í heild sinni.