[sam_zone id=1]

Calais tryggði sig upp um deild í Frakklandi

Calais fór um helgina til Metz í Frakklandi og lék þar við heimaliðið í Maizieres Metz. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur aðalega fyrir Calais en með sigri í leiknum myndi liðið endanlega tryggja sér efsta sæti riðilsins og fara þar með upp um deild.

Liðsmenn Calais voru þó eitthvað stressaðir í byrjun leiks og náði Maizieres fljótt góðu forskoti. Þeir leiddu með 6 stigum 11-5 í byrjun hrinunnar. Eftir það tók Calais þó við sér og náðu þeir að gefa betur upp og bættu hávörnina hjá sér til muna. Þeir söxuðu hægt og rólega á forskot heimamanna og enduðu á því að vinna þægilega sigur í hrinunni 25-19.

Calais voru komnir í gang og önnur hrinan var þeirra eign frá upphafi til enda. Þeir voru búnir að loka blokkinni hjá sér og Maizieres áttu engin svör við sterkum leik gestanna sem sigruðu hrinuna nokkuð örugglega 25-15.

Maizieres gáfust þó ekki upp á heimavelli og þeir mættu ákveðnir til leiks í þriðju hrinu. Jafnt var þó á liðunum alla hrinuna þó Maizieres hafi haft undirtökin. Calais voru að láta dómgæsluna og aðra litla hluti fara í taugarnar á sér og á endanum var það Maizieres sem vann hrinuna 25-23 eftir mikla baráttu hjá báðum liðum.

Maizieres byrjuðu fjórðu hrinuna einnig betur og virtust Calais enþá vera að jafna sig á tapinu í hrinunni á undan. Maizieres leiddu 18-13 og virtust ætla að fara með leikinn í fimm hrinur. Calais náði þó að komast yfir 19-18 eftir góða uppgjafaskorpu hjá Hafsteini og var leikurinn í járnum. Calais náði þó að halda þessu forskoti og sigraði hrinuna með minnsta mun þegar Vedran Vulicevic skoraði 25 stig liðsins og tryggði liðinu 3-1 sigur.

Þrátt fyrir að liðið eigi einn leik eftir í deildinni og flest önnur tvo leiki er Calais búið að tryggja sig upp um deild og því skiptir ekki máli hvernig aðrir leikir fara.

Hafsteinn Valdimarsson var að vanda í byrjunarliði Calais og átti hann flottan leik fyrir liðið í dag.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.