[sam_zone id=1]

Calais tapaði fyrir Conflans

Calais hélt í gær til Parísar og lék þar gegn liði Conflans í fyrsta leik í úrslitakeppninni. Úrslitakeppnin fer þannig fram að þrjú efstu liðin úr hvorum riðli koma saman og leika gegn hvort öðru heima og heiman.

Leikurinn í gær var jafn til að byrja með og var lítið sem bar á milli liðanna. Þegar leið á hrinuna náðu heimamenn þó frunkvæðinu en liðsmenn Calais áttu í vandræðum með sterkar uppgjafir heimamanna. Calais náði þó aldrei að minnka muninn og unnu Conflans fyrstu hrinunna með minnsta mun 25-23.

Önnur hrinan var ekki góð hjá Calais þar sem þeir réðu illa við leikmenn Conflans, skemmst er frá því að segja að Conflans unnu aðra hrinuna einnig öruggt 25-19.
Calais voru þó ekki búnir að gefast upp og mættu þeir ákveðnir til leiks í þriðju hrinu. Þeir voru búnir að ná stjórn á móttökunni hjá sér og höfðu þeir góða forystu sem þeir héldu alla hrinunna og unnu hana 19-25.

Fjórða hrinan var hin mesta skemmtun og mikil spenna. Conflans voru með frumkvæðið framan af en Calais voru þó aldrei langt undan. Það var þó í stöðunni 21-21 sem Conflans skoruðu, eitthvað voru Calais menn ósáttir með það og mótmæltu við dómara leiksins. Það fór ekki betur en svo að leikmaður Calais fékk rauða spjaldið og voru því Conflans allt í einu komnir 23-21 yfir. Calais náði ekki að brúa bilið og tapaði hrinunni 25-22 og leiknum þar með 3-1.

Hafsteinn Valdimarsson var í byrjunarliði Calais í leiknum og lék hann allan leikinn og átti mjög góðan leik fyrir Calais.

Nánar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.