[sam_zone id=1]

Calais með gríðarlega mikilvægan sigur í toppbaráttunni í Frakklandi

Calais hélt í gær til Beavais og lék þar við heimamenn, þessi leikur var mjög mikilvægur í baráttunni um toppsætið í deildinni. Fyrir leikinn var Calais í efsta sæti með 28 stig en Beauvais í 2-4 sæti með 27 stig. Það var því ljóst að það var mikið undir þegar þessi lið mættust í gær.

Calais byrjaði leikinn betur í gær og mátti sjá á þeim að þeir voru tilbúnir í þennan leik. Þeir voru með yfirhöndina framan af fyrstu hrinu en Beauvais voru þó aldrei langt undan. Um miðja hrinuna sigu Calais þó fram úr og unnu hrinuna að lokum 25-21.

Næsta hrina var svipuð og sú fyrsta nema nú snérust hlutverkin við og var það Calais sem var að elta Beauvais. Beauvais náðu góðu forskoti um miðja hrinuna og virtust vera að sigla hrinunni heim. Calais gáfust þó ekki upp og með mikilli baráttu og góðum uppgjöfum náðu þeir að jafna leikinn í 23-23. Það dugði þó ekki til þar sem Beauvais skoraði síðustu tvö stig hrinunnar og fór með sigur af hólmi 25-23.

Calais mættu tvíefldir til leiks í næstu hrinu og eftir að liðin höfðu fylgst af í byrjun hrinunnar settu Calais í næsta gír og völtuðu yfir heimamenn en hrinan endaði með stórsigri 25-14. Næsta hrina var svo svipuð þar sem Calais náði fljótt góðu forskoti í hrinunni sem þeir létu aldrei af hendi. Það fór því þannig að lokum að Calais sigraði einnig fjórðu hrinuna 25-17 og þar með leikinn 3-1.

Hafsteinn Valdimarsson var að vanda í byrjunarliði Calais og átti hann eins og allt lið Calais í kvöld mjög góðan leik.

Calais er því enþá í efsta sæti deildarinnar og er nú með 31 stig en næstu lið eru með 27 stig en eiga leik til góða.

Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu í deildinni má sjá hér.