[sam_zone id=1]

Breytingar í Neskaupstað

Tímabilið hér heima nálgast óðfluga og Þróttur Fjarðabyggð kemur til leiks með breytt lið í bæði karla- og kvennaflokki.

Þróttur Fjarðabyggð hefur undanfarin ár haft mikil tengsl við spænska leikmenn og líklega eiga spænskir þjálfarar þeirra mestan þátt í því. Gonzalo Garcia Rodriguez þjálfar báða meistaraflokka félagsins þetta tímabilið líkt og hann gerði síðasta tímabil og hafa liðin tekið breytingum fyrir komandi tímabil. Leikmannahópar Þróttar byggja helst á ungum leikmönnum og erlendir leikmenn hafa leikið stór hlutverk hjá þeim undanfarin ár.

Fyrsti leikur kvennaliðsins verður þann 25. september þegar liðið mætir Þrótti Reykjavík á heimavelli en karlarnir mæta KA á Akureyri föstudaginn 17. september. Ekki skal fullyrt um það hvort leikmannahópar liðanna séu orðnir fullmannaðir en það verður fróðlegt að sjá hvernig úrvalsdeildarliðin mæta til leiks á næstu dögum.

Meistaraflokkur kvenna

Kvennamegin heldur liðið öðrum af tveimur spænskum leikmönnum sínum síðan í fyrra en Maria Jimenez Gallego heldur áfram með liðinu í vetur. Maria Maria Eugenia Sageras mun hins vegar ekki leika með liðinu þetta tímabilið en Þróttarar hafa fengið tvo spænska leikmenn til viðbótar.

Þær Alba Hernandez Aredes og Paula Miguel De Blaz hafa gengið til liðs við Þróttara og koma til með að hjálpa liðinu í vetur. Alba er 33 ára gamall uppspilari sem hefur leikið í næstefstu deild Spánar undanfarin 14 ár. Paula er 23 ára gömul og leikur sem miðjumaður en hún hefur leikið í tveimur efstu deildunum á Spáni.

Meistaraflokkur karla

Í karlaliðinu voru tveir spænskir leikmenn á síðasta tímabili og líkt og hjá kvennaliðinu heldur annar þeirra áfram með liðinu. Miguel Angel Ramos Melero, eða einfaldlega Melero eins og hann er oft kallaður, tekur slaginn með Þrótturum fjórða tímabilið í röð en Melero verður fertugur í vor. Hann hefur gefið ungu liði Þróttar mikla reynslu undanfarin tímabil og verður eflaust mikilvægur hluti liðsins líkt og áður.

Francisco José Lopez Barrionuevo var uppspilari liðsins í fyrra en hann mun ekki halda áfram með liðinu. Í hans stað kemur Jaime Monterroso Vargas. Jaime er uppspilari og er á 22. aldursári. Hann hefur leikið í næstefstu deildinni á Spáni og einnig leikið með U-21 landsliði Spánar.

Myndir fengnar af Facebook-síðu Þróttar.