[sam_zone id=1]

Brasilía sannfærandi í úrslitum

Ríkjandi Ólympíumeistarar Brasilíu tryggðu sér gullið í VNL í dag með sterkum sigri á Póllandi.

Þjóðadeildin svokallaða, eða VNL (Volleyball Nations League), fór fram á Rimini undanfarnar vikur og kvennadeildinni lauk á föstudag með sigri Bandaríkjanna. Laugardag og sunnudag fóru svo fram síðustu leikir í karlaflokki þar sem að lið Brasilíu, Póllands, Slóveníu og Frakklands börðust um gullið. Brasilía mætti Frakklandi á laugardag og Pólland mætti Slóveníu.

Leikur Brasilíu og Frakklands var nokkuð jafn en Brasilía hafði þó alltaf yfirhöndina. Þeir sigldu heim öruggum 3-0 sigri og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum. Svipaða sögu mátti segja af leik Póllands og Slóveníu en sá leikur var þó mun jafnari. Slóvenía skoraði að minnsta kosti 21 stig í öllum hrinum leiksins en þrátt fyrir það vann Pólland 3-0 og tryggði sig áfram í úrslitin.

Á sunnudagsmorgun fór bronsleikurinn fram og það var franska liðið sem hafði yfirhöndina gegn Slóveníu. Frakkarnir unnu fyrstu hrinuna nokkuð sannfærandi og næstu tvær hrinur gengu eins fyrir sig. Frakkland var skrefi á undan og vann hrinurnar nokkuð örugglega. Frakkland vann leikinn 3-0 og tryggði sér því bronsverðlaun í Þjóðadeildinni árið 2021.

Úrslitaleikur Brasilíu og Póllands var barátta þeirra tveggja liða sem höfðu staðið sig hvað best undanfarnar vikur og því viðeigandi að liðin mættust í úrslitum. Pólland byrjaði leikinn betur og náði að knýja fram 22-25 sigur í fyrstu hrinu en Brasilía svaraði með 25-23 sigri í annarri hrinu. Eftir þetta virtist allur vindur úr Pólverjum og Brasilía valtaði yfir þá. Brasilía vann næstu tvær hrinur 25-16 og 25-14 sem tryggði þeim 3-1 sigur og gullverðlaunin á mótinu.

Að úrslitaleiknum loknum var draumalið mótsins valið þar sem leikmenn úr efstu fjórum liðunum komu til greina. Þeir Bartosz Kurek og Wallace De Souza þóttu báðir skara fram úr og deildu þeir titlinum besti leikmaður keppninnar. Þeir leika báðir í díó stöðunni og fóru fyrir sínum liðum í stigaskorun. Liðið í heild sinni má sjá hér :

Draumalið VNL 2021

Draumalið mótsins

Kantar : Yoandy Leal (Brasilía) og Michal Kubiak (Pólland)

Miðjur : Mauricio Souza (Brasilía) og Mateusz Bieniek (Pólland)

Uppspilari : Fabian Drzyzga (Pólland)

Díó : Wallace De Souza (Brasilía) / Bartosz Kurek (Pólland)

Frelsingi : Thales (Brasilía)

Bestu leikmenn : Wallace De Souza og Bartosz Kurek

Úrslit helgarinnar

Brasilía 3-0 Frakkland (25-20, 25-18, 25-19). Yoandy Leal skoraði 20 stig fyrir Brasilíu og Wallace De Souza bætti við 13 stigum. Hjá Frakklandi var Jean Patry stigahæstur með 12 stig en Bart Chinenyeze og Earvin N’Gapeth komu næstir með 5 stig hvor.

Pólland 3-0 Slóvenía (25-22, 25-21, 25-23). Bartosz Kurek skoraði 17 stig fyrir Pólland og Wilfredo Leon skoraði 13 stig. Tine Urnaut var stighæstur Slóvena með 13 stig og Toncek Stern bætti við 12 stigum.

Frakkland 3-0 Slóvenía (25-20, 25-18, 25-19). Earvin N’Gapeth skoraði 18 stig fyrir Frakkland og Stephen Boyer kom næstur með 15 stig. Toncek Stern var stigahæstur í liði Slóveníu með 12 stig en Tine Urnaut skoraði 10 stig.

Brasilía 3-1 Pólland (22-25, 25-23, 25-16, 25-14). Wallace De Souza skoraði 22 stig fyrir Brasilíu og Yoandy Leal skoraði 17 stig. Hjá Póllandi var Bartosz Kurek stigahæstur með 17 stig en Michal Kubiak kom næstur með 15 stig.