[sam_zone id=1]

Bliesen vann gegn Friedrichshafen

TV Bliesen lék tvívegis um helgina en liðið mætti liðum Friedrichshafen 2 og Mimmenhausen.

Lið Friedrichshafen 2 situr á botni deildarinnar en þar fyrir ofan koma Máni Matthíasson og félagar hans í Bliesen. Fyrri leikur liðanna var æsispennandi en þá vann Bliesen 3-2 sigur. Að þessu sinni mættust liðin á heimavelli Bliesen en spennan var engu síðri en í fyrri leiknum. Fyrsta hrina var hnífjöfn og vann Bliesen hana með minnsta mun, 25-23. Það sama átti við um aðra hrinuna þar sem að Bliesen vann 26-24 og leiddi 2-0.

Gestirnir frá Friedrichshafen náðu að kreista fram 25-27 sigur í þriðju hrinunni en Bliesen vann sannfærandi sigur í fjórðu hrinu sem lauk 25-22. Heimamenn í Bliesen unnu leikinn því 3-1 og var Máni valinn maður leiksins í þessum sæta sigri.

Í dag, sunnudag, mætti liðið svo sterku liði Mimmenhausen. Lið Bliesen byrjaði leikinn á afturfótunum og vann Mimmenhausen fyrstu hrinu afar auðveldlega, 10-25. Heimamenn vöknuðu þó aðeins til lífsins og náðu að stríða gestunum töluvert í næstu hrinum. Mimmenhausen unnu næstu tvær hrinur þó 22-25 og 20-25 sem tryggði þeim 0-3 sigur. Bliesen vann því annan leik sinn þessa helgina og voru úrslit leikjanna tveggja eins og við var að búast.

Bliesen er nú með 12 stig í 14. sætinu, 4 stigum á eftir liði Mainz sem er í 13. sætinu. Bliesen mætir Hammelburg þann 3. apríl næstkomandi og fer sá leikur einnig fram á heimavelli Bliesen. Gestirnir frá Hammelburg eru í 3. sæti deildarinnar og verður leikurinn því ansi erfiður fyrir Mána og félaga hans í Bliesen.