[sam_zone id=1]

Bliesen vann aftur

Máni Matthíasson og félagar hans í TV Bliesen mættu Kriftel í 2. deildinni í Þýskalandi í dag.

Lið TV Bliesen er enn í erfiðri stöðu nálægt botni suðurriðilsins, þar sem liðið leikur, en Kriftel voru þó ekki langt undan fyrir leik dagsins. Þeir höfðu leikið tveimur færri leiki en Bliesen en voru þó einungis fjórum stigum á undan. Bliesen gat því minnkað muninn í eitt stig með sigri í dag. Eftir fjóra útileiki í röð var loks komið að heimaleik hjá Bliesen en áhorfendur eru þó ekki leyfðir þessa stundina í Þýskalandi.

Máni var í byrjunarliði Bliesen líkt og undanfarna leiki og lék allan leikinn fyrir heimaliðið. Fyrsta hrina leiksins var hnífjöfn og átti það eftir að verða þema leiksins. Bliesen hafði forystu lengst af en Kriftel átti frábæran lokakafla og náði að vinna hrinuna 22-25. Sama mátti segja um aðra hrinu en að þessu sinni var það Kriftel sem leiddi framan af. Um miðja hrinu náði Bliesen forystunni og vann að lokum 25-22 eftir mikla spennu.

Enn var mikil spenna í þriðju hrinu leiksins og liðin skiptust á stigum. Jafnt var 20-20 en Bliesen lék mun betur undir lokin og vann 25-21. Það var því allt undir í fjórðu hrinunni sem sýndi sig inni á vellinum. Líkt og í hinum hrinunum var hnífjafnt undir lok hrinunnar en gestirnir í liði Kriftel kreistu fram oddahrinu með 23-25 sigri. Spennan hélt áfram og Bliesen vann að lokum 16-14 og tryggði sér þriðja sigur sinn á þessu tímabili.

Eftir þennan sigur er Bliesen með 7 stig eftir 12 leiki en liðin í kring hafa leikið færri leiki en Bliesen. Næsti leikur liðsins verður gegn Grafing á útivelli en lið Grafing er á toppi deildarinnar ásamt Karlsruhe. Leikurinn fer fram 12. desember og síðasti leikur liðsins fyrir jól verður útileikur gegn Gotha þann 20. desember.