[sam_zone id=1]

Bliesen tapaði tvívegis um helgina

Lið TV Bliesen, sem Máni Matthíasson leikur með, spilaði tvo útileiki um helgina í 2. deild Þýskalands.

Bliesen var fyrir leikina tvo í næstneðsta sæti en liðið mætti Delitzsch og Dresden á laugardag og sunnudag. Bæði þessi lið voru skammt frá botninum og því gat lið Bliesen sett mikla spennu í botnbaráttuna með góðum úrslitum. Máni Matthíasson, landsliðspuppspilari Íslands, lék með liðinu í báðum leikjum helgarinnar og þá er þjálfari liðsins Burkhard Disch, þjálfari karlalandsliðs Íslands og afreksstjóri BLÍ. Líkt og við Íslendingar þekkjum eru ferðalög í leiki mislöng og nýtti Bliesen ferðina austur til Delitzsch til að mæta nágrönnum þeirra í Dresden þessa sömu helgi.

Á laugardeginum mætti Bliesen liði Delitzsch sem var einu sæti ofar í deildinni. Heimamenn í Delitzsch höfðu þó einungis spilað fimm leiki á meðan að Bliesen hafði spilað sjö. Vegna kórónuveirunnar er leikjafjöldi liðanna mjög mismunandi en deildarkeppnin hefur að mestu leyti farið eðlilega fram. Máni var í byrjunarliði Bliesen og lék fyrstu hrinuna en liðið átti afar erfitt uppdráttar í leiknum. Heimamenn unnu þægilegan 3-0 sigur (25-16, 25-22, 25-14) og lék hinn uppspilari liðsins, Philipp Sigmund, seinni tvær hrinurnar.

Í dag fór seinni leikur helgarinnar fram en þá mætti Bliesen liði Dresden á þeirra heimavelli. Dresden voru, líkt og Delitzsch, örlítið ofar en Bliesen í töflunni með níu stig eftir níu leiki, gegn þremur stigum Bliesen. Máni var aftur í byrjunarliðinu í dag og að þessu sinni lék hann allan tímann. Leikurinn var mjög jafn en Máni og félagar unnu fyrstu hrinu 23-25. Næstu þrjár unnu hins vegar heimamenn í Dresden (25-18, 25-22, 25-22) og unnu leikinn þar með 3-1. Bliesen fara því tómhentir heim eftir tvo erfiða leiki.

Eftir helgina eru Bliesen enn í 14. sæti suðurriðilsins í 2. deild Þýskalands en einungis lið Friedrichshafen 2 er neðar í stöðutöflunni. Það verður því sannkallaður botnslagur næstu helgi þegar Bliesen sækir Friedrichshafen 2 heim á laugardag. Lið Bliesen mun einnig spila tvo leiki þá helgina en á sunnudeginum mæta þeir sterku liði Mimmenhausen. Nauðsynlegt er fyrir Mána og félaga að sækja stig úr þessum leikjum en þar sem að tvö lið falla úr riðlinum í vor eru þeir í fallsæti eins og er.