[sam_zone id=1]

Bliesen tapaði naumlega í botnslag

Lið TV Bliesen lék tvo leiki þessa helgina í 2. deild Þýskalands.

Helgin var ansi viðburðarík hjá Mána Matthíassyni og félögum hans í þýska liðinu TV Bliesen. Liðið lék tvo leiki, einn á laugardag og annan á sunnudag. Fyrri leikur helgarinnar var gegn sterku liði Schwaig sem sat í 5. sætinu en Bliesen var í 13. sæti, rétt á undan Mainz. Það var því viðeigandi að Bliesen og Mainz mættust á sunnudeginum í afar mikilvægum leik fyrir bæði lið.

Lið Bliesen spilaði frábærlega á laugardeginum og var ekki að sjá að liðin væru í svo ólíkri stöðu í deildinni. Bliesen vann fyrstu hrinuna 25-20 en gestirnir komu sterkir til baka í annarri hrinu og unnu hana 17-25. Undir lok þriðju hrinunnar hafði Bliesen 22-21 forystu en Schwaig náði að snúa leiknum sér í vil með góðum lokakafla. Schwaig unnu 22-25 og leiddu 1-2.

Fjórða hrinan var einnig æsispennandi en Schwaig vann þar með minnsta mun, 23-25. Schwaig vann leikinn þar með 1-3 og svekkjandi fyrir Bliesen að fá ekkert út úr leiknum eftir góða spilamennsku. Það var þó ekki tími til að svekkja sig þar sem að mikilvægi leikurinn gegn Mainz var strax í dag, sunnudag.

Bliesen byrjaði leikinn af krafti og leiddi stóran hluta fyrstu hrinunnar. Þeir voru sterkari aðilinn og unnu hrinuna 22-25 og tóku þar með 0-1 forystu. Bliesen gerði enn betur í annarri hrinunni og vann hana örugglega, 19-25. Þriðja hrinan var mun jafnari og voru heimamenn í Mainz skrefinu á undan. Þeir leiddu naumlega en Bliesen gerði vel undir lokin og náði að jafna. Mistök undir lok hrinunnar gáfu Mainz hins vegar tækifæri og unnu þeir 27-25.

Ekki byrjaði fjórða hrinan vel hjá Bliesen en Mainz náðu 9-3 forystu. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Mainz sem unnu hrinuna 25-14 og fór leikurinn því í oddahrinu. Heimamenn reyndust einnig sterkari í oddahrinunni og náði Bliesen sér aldrei almennilega á strik. Hirnunni lauk með 15-11 sigri Mainz sem vann leikinn þar með 3-2 og er nú tveimur stigum á undan Bliesen í deildinni. Liðin eru enn í 13. og 14. sæti deildarinnar og verður að teljast ólíklegt að þau nái liðunum fyrir ofan sig. Þar er Kriftel með 17 stig í 12. sætinu en Bliesen er með 9 stig.

Næstu helgi spilar Bliesen aftur tvo leiki en þá mæta þeir toppliði Karlsruhe á laugardag og Gotha á sunnudag. Lið Gotha er í 4. sæti deildarinnar svo að ljóst er að það þarf allt að ganga upp til að Bliesen nái í stig gegn þessum sterku andstæðingum.