[sam_zone id=1]

Bliesen náði í stig gegn Dresden

Máni Matthíasson og félagar hans í TV Bliesen náðu í stig gegn Dresden í spennandi leik á laugardag.

Lið TV Bliesen hefur átt í mikilli baráttu í neðri hluta deildar sinnar en þeir leika í suðurhluta 2. deildar Þýskalands ásamt 14 öðrum liðum. Fyrir helgina var Bliesen í 13. sæti með 7 stig en Dresden, mótherji þeirra á laugardag, var með 18 stig um miðja deild. Máni hefur glímt við meiðsli frá því um miðjan janúar en var kominn á fullt um helgina og spilaði allan leikinn.

Leikurinn byrjaði ekki vel hjá Bliesen en gestirnir frá Dresden höfðu yfirhöndina alla fyrstu hrinu og unn hana 17-25. Aðra sögu var að segja í næstu hrinu þar sem að liðin skiptust á stigum nánast alla hrinuna. Dresden náðu þó góðum kafla undir lokin og náðu 0-2 forystu með því að vinna hrinuna 20-25. Liðsmenn Bliesen komust loksins almennilega í gang í þriðju hrinu leiksins og voru í forystu alveg frá fyrsta stigi hrinunnar. Þeir unnu 25-23 eftir öflugan lokakafla hjá Dresden og héldu því lífi í leiknum.

Dresden litu vel út í fjórðu hrinu og leiddu allt fram að miðbiki hrinunnar. Þá kom 13-5 kafli þar sem að Bliesen valtaði yfir gestina og tryggði sér oddahrinu með 25-21 sigri. Oddahrinan var mjög jöfn til að byrja með og var jafnt í stöðunni 7-7 en þá stungu gestirnir af. Þeir unnu oddahrinuna 10-15 og tóku því tvö stig en Bliesen fékk eitt stig. Staða liðanna í deildinni breyttist þar með lítið og Bliesen eru enn á hættusvæði nálægt botni deildarinnar.

Bliesen fær nú smá hvíld en næstu leikir fara fram dagana 20. og 21. febrúar. Fyrri daginn mætir Bliesen sterku liði Schwaig sem situr nú 5. sæti deildarinnar og fer sá leikur fram á heimavelli Bliesen. Seinni leikurinn verður hins vegar hörkuleikur gegn Gonsenheim sem er í 14. sæti deildarinnar en jafnt Bliesen að stigum. Sá leikur fer fram á heimavelli Gonsenheim sem staðsettur er um 100 km frá Bliesen. Helgin verður því afar mikilvæg fyrir Mána og félaga hans.