[sam_zone id=1]

Bliesen náði í sinn fyrsta sigur á tímabilinu

Máni Matthíasson og félagar hans í TV Bliesen mættu Gonsenheim í kvöld.

Landsliðsuppspilari Íslands, Máni Matthíasson, lék í kvöld með liði Bliesen gegn gestunum frá Gonsenheim. Lið Bliesen leikur í suðurriðli 2. deildarinnar í Þýskalandi en liðið vann sig upp úr 3. deildinni á síðustu leiktíð. Kórónuveiran hefur haft áhrif á deildina, líkt og aðrar deildir í Evrópu, en þó hafa flestir leikir farið fram með eðlilegum hætti. Þessa dagana eru leikmenn tveggja efstu deildanna skimaðir reglulega svo að þeir geti æft og keppt með sínum liðum. Máni missti af síðasta leik vegna sóttkvíar en var kominn aftur í liðið í kvöld. Hann var þá í byrjunarliðinu í annað skipti á tímabilinu.

Lið Bliesen byrjaði leikinn mjög vel og leiddi fyrstu hrinu alveg frá upphafi. Þeir unnu hrinuna sannfærandi, 25-21. Önnur hrina var mun jafnari en Bliesen náði þó að kreista fram 26-24 sigur og stefndi óðfluga að fyrsta sigri tímabilsins. Máni kláraði hrinuna með einni af fjölmörgum hávörnum sínum í leiknum. Þriðja hrinan var keimlík annarri hrinunni en í þetta skiptið vann Gonsenheim, 22-25.

Bliesen hafði þar með 2-1 forystu í leiknum en lenti fljótt undir í fjórðu hrinunni. Þeir eltu alla hrinuna en náðu að jafna leikinn þegar skammt var eftir. Lokakaflinn var æsispennandi en það voru heimamenn í Bliesen sem unnu hrinuna 25-23 og unnu leikinn þar með 3-1. Liðsmenn Bliesen fögnuðu fyrsta sigri tímabilsins vel og innilega. Hinn ungi og efnilegi Aaron Neumann var valinn maður leiksins í liði Bliesen en hann kom inn í fjórðu hrinunni og gerði gæfumuninn.

Næst á dagskrá hjá liðinu er útileikur gegn liði Schwaig sem er í 4. sæti deildarinnar af alls 15 liðum. Það má því búast við erfiðum leik en Máni og félagar eru á góðu róli eftir að hafa náð í langþráðan sigur.