[sam_zone id=1]

Bliesen náði í annan sigur sinn á tímabilinu

Máni Matthíasson og félagar í TV Bliesen léku tvo leiki í 2. deild Þýskalands þessa helgina, líkt og þá síðustu.

Fyrir helgina var liðið í 14. sæti suðurriðilsins í 2. deild Þýskalands en liðið hafði einungis unnið einn leik. Fyrri leikur liðsins, sem fór fram í gær, var gegn botnliðinu í 15. sæti, VfB Friedrichshafen 2. Leikurinn fór fram í nýrri og glæsilegri höll í Friedrichshafen, Zeppelin CAT höllinni. Máni var í byrjunarliði Bliesen í leiknum og fór einungis á bekkinn nokkur stig í fjórðu hrinunni.

Lið Bliesen þurfti nauðsynlega á stigum að halda og byrjaði leikinn gegn Friedrichshafen mjög vel. Þeir unnu fyrstu tvær hrinur leiksins sannfærandi, 19-25 og 22-25. Eftir það gaf liðið þó aðeins eftir og tapaði þriðju hrinunni 25-19. Í fjórðu hrinunni gekk allt á afturfótunum og heimamenn unnu hana einnig, nú 25-17. Það þurfti því að grípa til oddahrinu sem var æsispennandi en Bliesen skoraði þrjú síðustu stigin og kreisti fram 12-15 sigur. Þeir unnu leikinn þar með 2-3 og fengu tvö mikilvæg stig.

Í dag mætti lið Bliesen heimamönnum í Mimmenhausen sem voru fyrir leikinn í 2. sæti deildarinnar. Þrátt fyrir mikinn mun á liðunum samkvæmt stöðutöflunni var leikurinn í dag æsispennandi. Lið Bliesen var grátlega nálægt því að vinna fyrstu hrinuna en Mimenhausen kreisti fram 30-28 sigur. Aðra hrinuna unnu heimamenn 25-21 en mikið jafnræði var með liðunum þangað til í lokin. Þriðju hrinuna unnu þeir svo 25-18 og unnu leikinn þar með 3-0.

Máni var í byrjunarliði Bliesen í öllum hrinum leiksins og hvíldi örfá stig í annarri og þriðju hrinu. Hann lék því nánast allan tímann í báðum leikjum helgarinnar og er ljóst að Burkhard Disch, þjálfari Bliesen og karlalandsliðs Íslands, treystir honum sífellt betur. Næsti leikur Bliesen verður heimaleikur gegn Kriftel og fer hann fram laugardaginn 5. desember næstkomandi. Leikinn má sjá í beinni útsendingu á streymisveitunni Sporttotal.