[sam_zone id=1]

BLÍ frestar mótahaldi

Blaksamband Íslands hefur frestað öllu mótahaldi á meðan samkomubann er í gildi í landinu en þetta kemur fram í tilkynningu frá Blaksambandinu.

“Eftir tilkynningu frá heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum hefur stjórn BLÍ tekið þá ákvörðun að fresta öllum leikjum í mótum á vegum BLÍ á meðan samkomubann er í gildi í landinu. Nánari upplýsingar verða gefnar út eins og tilefni er til en BLÍ mun fylgja tilmælum almannavarna og ÍSÍ í starfi sambandsins. Stjórn BLÍ vill beina því til forsvarsmanna og þjálfara félganna að fara að einu og öllu eftir tilmælum stjórnvalda þegar kemur að starfi félaganna á meðan samkomubanninu stendur frá miðnætti á sunnudagskvöld.”

Þá sendi Grétar Eggertsson formaður Blaksambandsins einnig frá sér tilkynningu á facebook síðu sambandsins en hún er eftirfarandi:

“Kæru blakfélagar
Eins og flest ykkar í hreyfingunni hafið orðið vör við að þá hafa hlutirnir gerst hratt síðustu daga og fyrir okkur í blakinu getum við talað um klukkutíma. Stórar og erfiðar ákvarðanir hafa verið í höndum stjórnar og starfsmanna BLÍ í þessari viku og það var einlæg von okkar að íþróttafólkið okkar gæti verið í sviðsljósinu þessa helgina og allur okkar undirbúningur miðaðist við það. Það var því vonbrigði að það tókst ekki en miðað við hvernig mál þróuðust að þá teljum við að þetta hafi verið rétt og ábyrg ákvörðun.

Í framhaldi af frestun bikarkeppninnar hefur stjórn BLÍ einnig ákveðið að fresta öllu mótahaldi á vegum BLÍ þegar samkomubann hefur tekið gildi í landinu.Það er alveg ljóst að verkefnið næstu daga hjá okkur er að átta sig á aðstæðum, vinna með þær forsendur sem fyrir framan okkur eru og komast að góðri lausn um hvernig við klárum þennan blakvetur. Stjórn Blaksambandsins og starfsmenn mun leita til aðila innan blakfjölskyldunnar til að koma að þeirri vinnu og í raun er ykkar þátttaka okkur bæði verðmæt og mikilvæg.

Þær aðstæður sem eru núna uppi er nýjar fyrir okkur öll og það er áríðandi að við höldum ró okkar. Mikilvægt er að hafa skilning á því að yfirvöldum hefur ekki gefist tími til að sjá fyrir allt flækjustig eða útfærslur í ýmsum málaflokkum. Aðstæður geta breyst mjög hratt og getur verið að við þurfum að bregðast við nýjum áskorunum sem geta komið upp á hverjum degi en ég veit að við munum takast á við þær áskoranir með jákvæðni og dugnaði og með samstilltu átaki okkar allra förum við í gegnum þetta.

Með blakkveðju
Grétar Eggertsson, formaður Blaksambands Íslands”