[sam_zone id=1]

Besti og efnilegasti – Mizunodeild karla

Nú er komið að besta leikmanni Mizunodeildarinnar tímabilið 2020/21 og þeim efnilegasta að mati Blakfrétta.

Mikil barátta var milli bestu og efnilegustu leikmannanna í kjöri Blakfrétta þetta tímabilið en þeir sem fengu flest stig voru þeir Wiktor Mielczarek úr Hamri og Hermann Hlynsson úr HK. Jakub Madej úr Hamri og Miguel Mateo Castrillo úr KA komu fast á hæla Wiktors í kjörinu á besta leikmanninum en liðsfélagi Hermanns úr HK, Elvar Örn Halldórsson, var næstur á eftir Hermanni í kjörinu á efnilegasta leikmanninum.

Besti leikmaðurinn – Wiktor Mielczarek

Wiktor kom til liðs við Hamar stuttu eftir að keppni hófst í Mizunodeildunum en missti aðeins af tveimur leikjum. Hann kom af miklum krafti inn í lið Hamars sem var afar sterkt fyrir komu hans. Með Wiktor í liðinu virtust Hamarsmenn óstöðvandi og eins og hefur áður komið fram vann liðið alla leiki sína á tímabilinu og tapaði einungis örfáum hrinum.

Wiktor skoraði 178 stig á tímabilinu, aðeins þremur stigum minna en Jakub Madej, liðsfélagi hans. Ef farið var eftir stigaskori fyrir hverja spilaða hrinu var Wiktor í öðru sæti deildarinnar en aðeins Miguel Mateo Castrillo úr KA skoraði fleiri stig fyrir hverja spilaða hrinu. Uppgjafir Wiktors hjálpuðu Hamri einnig gríðarlega en hann var langstigahæsti leikmaður tímabilsins á því sviði með 41 stig úr uppgjöf.

Móttökutölfræði hans var sú besta í deildinni og þá var sóknarnýtingin sú næstbesta á eftir Hafsteini Valdimarssyni, liðsfélaga hans úr Hamri. Wiktor er frábær alhliða leikmaður sem átti stóran þátt í velgengni Hamars þetta tímabilið. Það verður áhugavert að sjá hvort hann taki slaginn aftur með Hamri næsta haust en Wiktor er einnig afar frambærilegur strandblakari. Það væri því gaman að sjá hann spreyta sig á stigamótum sumarsins en það verður þó að teljast ólíklegt.

Efnilegasti leikmaðurinn – Hermann Hlynsson

Hermann Hlynsson er uppspilari hjá liði HK og hefur undanfarin tímabil komið sér betur og betur inn í hóp liðsins. Hermann, sem er fæddur árið 2002, kom við sögu í langflestum hrinum liðsins á leiktíðinni og tók við mun stærra hlutverki en áður. Hann gerði einkar vel í uppgjafarreitnum en Hermann var í 9.-14. sæti hvað varðar flest stig úr uppgjöf á tímabilinu með 14 stig.

Hermann hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og ætti nú að gera tilkall til A-landsliðs karla en vegna heimsfaraldursins er óljóst hvert næsta verkefni landsliðsins verður og þá hvenær.

Mynd : Dísa Sóley