[sam_zone id=1]

Best og efnilegust – Mizunodeild kvenna

Auk þess að velja lið ársins hafa fréttaritarar Blakfrétta valið besta og efnilegasta leikmanninn í Mizunodeild kvenna þetta tímabilið.

Eins og áður kom fram voru lið HK, Aftureldingar og KA með mikla yfirburði á síðastliðnu tímabili og því ætti það ekki að koma á óvart að besti leikmaður tímabilsins að mati Blakfrétta komi úr Íslandsmeistaraliði Aftureldingar. Thelma Dögg Grétarsdóttir átti frábært tímabil með Aftureldingu og kórónaði það með því að tryggja Íslandsmeistaratitilinn eftir spennandi einvígi við HK.

Efnilegasti leikmaðurinn kemur svo úr liði KA en það er uppspilarinn Jóna Margrét Arnarsdóttir. Jóna lék stórt hlutverk með KA á tímabilinu og stóð sig afar vel. Hún er því efnilegasti leikmaður tímabilsins 2020/21 að mati Blakfrétta.

Besti leikmaður Mizunodeildar kvenna – Thelma Dögg Grétarsdóttir

Thelma Dögg Grétarsdóttir leikur lykilhlutverk í liði Aftureldingar sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn fyrir nokkrum dögum. Thelma er helsti sóknarmaður liðsins og var stigahæsti leikmaður deildarinnar þegar teknar eru til greina spilaðar hrinur. Hún skoraði að meðaltali 5,46 stig í hverri hrinu og er eini leikmaðurinn sem skoraði meira en 5 stig í hrinu. Þá leiddi hún einnig tölfræðina í uppgjöfum þar sem að hún skoraði 59 ása í 63 hrinum eða 0,94 ása í hrinu. Sóknarnýting Thelmu var sú hæsta í deildinni sem sýnir hve öflugur sóknarmaður hún er.

Thelma er díó að upplagi en er einnig liðtæk í móttöku. Hún hefur því leyst kantstöðuna þegar Afturelding hefur þurft á því að halda eða viljað breyta til. Seinni hluta tímabilsins spilaði Thelma oftast sem díó þar sem hún átti frábæra leiki í deild og úrslitakeppni. Í sumar ætlar Thelma að reyna fyrir sér erlendis þegar hún og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir taka þátt í ítölsku mótaröðinni í strandblaki. Blakfréttir munu fylgja þeim eftir í þessu spennandi verkefni sem og á öðrum komandi mótum.

Efnilegasti leikmaður Mizunodeildar kvenna – Jóna Margrét Arnarsdóttir

Jóna Margrét er aðaluppspilari KA en þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára hefur hún staðið vaktina í byrjunarliði KA frá því í fyrra. Þegar Luz Medina yfirgaf lið KA tók Jóna við taumunum og hefur stjórnað spili KA síðan með góðum árangri. Auk þess að stjórna sóknarleiknum hjá KA er Jóna með sterkar uppgjafir og skoraði 59 ása á tímabilinu, líkt og Thelma Dögg. Hún spilaði þó fleiri hrinur en Thelma og skoraði 0,82 ása í hrinu yfir tímabilið.

Jóna Margrét lék sína fyrstu leiki með A-landsliði Íslands í janúar 2020 en það var jafnframt síðasta mót sem liðið tók þátt í. Jóna á því eflaust eftir að koma af krafti inn í kvennalandsliðið í næsta verkefni liðsins.

Myndir : Eva Björk