[sam_zone id=1]

Berglind og Elísabet halda til Belgíu

Þær Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir hafa tryggt sér þátttökurétt á móti í Belgíu þar sem þær fara beina leið í meginhluta keppninnar.

Berglind og Elísabet hafa undanfarin ár farið mikinn í strandblakinu í Danmörku en hafa einnig tekið þátt í Heimsmótaröðinni (World Tour). Þær hafa tvisvar tekið þátt á mótum í þeirri mótaröð en í bæði skiptin þurft að taka þátt í undankeppni og tapað þar. Þetta árið mun það þó breytast þar sem stelpurnar hafa fengið þátttökurétt í meginhluta móts í Belgíu sem haldið verður dagana 15.-18. júlí. Þær þurfa því ekki að taka þátt í undankeppni mótsins og verða fyrsta íslenska liðið til að keppa á slíku móti í strandblakinu.

Nóg er af mótum á dönsku mótaröðinni í sumar svo að stelpurnar ættu að ná að minnsta kosti einu móti áður en þær halda til Belgíu. Seinna í sumar er stefnan svo sett á fleiri mót en ekki er ljóst hvort að Berglind og Elísabet þurfi að taka þátt í undankeppni fyrir þau mót. Takist vel til í Belgíu ætti stigasöfnunin hjá stelpunum að rjúka upp og þar af leiðandi koma þeim inn á fleiri sterk mót í framhaldinu.