[sam_zone id=1]

Berglind Gígja ein sú besta í Danmörku

Berglind Gígja Jónsdóttir hefur verið tilnefnd sem besti leikmaður ársins 2019 í strandblakinu í Danmörku.

Berglind Gígja hefur verið búsett í Danmörku síðan árið 2014 og æfir þar strandblak allt árið. Berglind og Elísabet Einarsdóttir hafa leikið saman í strandblakinu en tóku sér pásu síðustu ár. Nú í sumar léku þær hins vegar saman og gerðu frábæra hluti í Danmörku og víða um heim.

Berglind og Elísabet léku á dönsku mótaröðinni auk þess að leika á World Tour mótum í Liechtenstein og Kína. Þær tóku þátt í fjölmörgum mótum í Danmörku yfir sumarið og stóð þar hæst sigur þeirra á lokamóti Pepsi Max mótaraðarinnar.

Valið verður kunngjört þann 22. febrúar 2020 á hátíðlegri athöfn danska blaksambandsins. Auk Berglindar eru þær Line Trans Hansen og Sofia Nørager Bisgaard tilnefndar. Nánar má lesa um tilnefningarnar með því að smella hér.