[sam_zone id=1]

Benedikt og Bjarki hafa lokið keppni á NEVZA

Íslensku strákarnir spiluðu tvo leiki í gær og töpuðu báðum leikjum.

Benedikt Baldur Tryggvason og Bjarki Sveinsson mættu þeim Solhaug/Gamlemoen í fyrsta leik sínum á NEVZA en norska liðið var mun sterkara. Norðmennirnir unnu hrinurnar 21-11 og 21-12 og unnu leikinn því 2-0. Íslensku strákarnir spiluðu þó annan leik seinna um daginn og mættu þar Englendingunum Dunbavin/Lawson.

Englendingarnir höfðu tapað naumlega fyrir öðru sterku norsku liði og því ljóst að leikurinn yrði erfiður fyrir Benedikt og Bjarka. Englendingarnir unnu leikinn 2-0 en hrinunum lauk 21-11 og 21-9. Strákarnir hafa því lokið keppni eftir tvo tapleiki en mótið heldur áfram þar til á sunnudag þegar úrslitaleikir fara fram.

Benedikt og Bjarki ljúka keppni í 13.-16. sæti og fá fyrir það 54 stig sem verður að teljast heilmikið, enda voru þeir einungis með 72 stig fyrir mótið. Daginn í dag nýta þeir vel þar sem að þeir æfa með danska parinu Christensen/Møller sem féll einnig úr leik í gær. Þeir halda svo heim á leið á sunnudag.