[sam_zone id=1]

Benedikt og Bjarki á NEVZA í Svíþjóð

Norðurlandamót í strandblaki fer fram í Gautaborg um helgina og á Ísland lið þar í karlaflokki.

Benedikt Baldur Tryggvason og Bjarki Sveinsson taka þátt í mótinu fyrir Íslands hönd en þeir léku einnig á móti í Skotlandi fyrr í haust. Mótið fer fram í Gautaborg í Svíþjóð þar sem að innivellir eru til strandblaksiðkunar. Keppendur þurfa því ekki að hafa áhyggjur af veðrinu að þessu sinni. Mótið er hluti af CEV Continental Tour mótaröðinni.

Sextán lið taka þátt í mótinu í hvorum flokki, karlaflokki og kvennaflokki, en Benedikt og Bjarki hefja leik klukkan 13:00 á staðartíma eða 12:00 á íslenskum tíma. Þeir mæta sterku norsku liði, Solhaug/Gardemoen, sem eru fjórða sterkasta lið mótsins ef stig undanfarinna móta eru skoðuð.

Leikið verður eftir svokölluðu “double elimination” kerfi þar sem að mótinu er tvískipt eftir fyrstu leiki. Sigurvegarar fara í efri útsláttarkeppni en taplið þá neðri. Þegar lið er komið í neðri flokkinn þýðir tap þar að liðið fellur úr leik. Liðin eiga þennan tapleik þó ekki inni þegar komið er lengra inn í mótið.

Nánari upplýsingar um mótið má finna með því að smella hér. Ekki er ljóst hvort að leikir mótsins verði sýndir en Blakfréttir munu auglýsa streymi ef þau verða til staðar.