[sam_zone id=1]

Belgía úr leik á EM

Riðlakeppni EM karla er nú lokið og þá tekur alvaran við í útsláttarkeppninni.

Í gærkvöldi fóru síðustu leikir fram í riðlakeppni EM karla og er nú ljóst hvaða lið mætast í 16-liða úrslitum keppninnar. Riðlakeppnin bauð upp á marga frábæra leiki og var spennan ansi mikil í þremur af fjórum riðlum. Útsláttarkeppnin hefst laugardaginn 11. september og 16-liða úrslitin klárast mánudaginn 13. september.

A-riðill

Lið Serbíu og Póllands áttu ekki í miklum vandræðum með að tryggja sig áfram úr A-riðlinum en spennan var öllu meiri í baráttunni um 3. og 4. sæti. Úkraína vann þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og hafði tryggt 3. sæti riðilsins fyrir lokaleikina en Belgía þurfti að treysta á hagstæð úrslit. Portúgal gat nefnilega farið upp fyrir belgíska liðið með sigri gegn Grikklandi í lokaleik sínum. Belgía vann aðeins einn af fimm leikjum sínum og hafði ekki verið sannfærandi í riðlakeppninni.

Portúgal kláraði sinn leik gegn Grikklandi með glæsibrag og vann 1-3 sigur. Portúgalir náðu því 4. sæti riðilsins og Belgía er úr leik á EM. Pólland vann alla fimm leiki sína og hirti efsta sætið en Serbía kom þar beint á eftir. Í þriðja sæti var lið Úkraínu og þar á eftir kom Portúgal.

B-riðill

Ítalía þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af sæti sínu í 16-liða úrslitum en þeir ítölsku þurftu þó að hafa mikið fyrir 1. sæti riðilsins. Slóvenía og Tékkland höfðu einnig leikið vel og síðustu tveir leikir Ítalíu voru einmitt gegn þessum tveimur liðum. Ítalía endaði á að vinna alla leiki sína í riðlinum og er eitt af þremur liðum til að ná því. Hin tvö voru Pólland og Frakkland. Slóvenía kom næst ítalska liðinu og náði 2. sæti riðilsins.

Tékkland hafði tryggt sæti sitt í 16-liða úrslitunum fyrir lokaleik sinn en Búlgaría og Hvíta-Rússland mættust í úrslitaleik um síðasta lausa sætið. Þar vann Búlgaría 3-1 sigur í jöfnum leik og Hvíta-Rússland er því úr leik á mótinu.

C-riðill

Í C-riðlinum höfðu Holland og Tyrkland tryggt sæti sitt í 16-liða úrslitunum nokkuð snemma og þar að auki voru Rússland og Finnland mun líklegri til að fylgja þeim heldur en Spánn og Norður-Makedónía. Það var því ekki svo óvænt að Holland, Tyrkland, Rússland og Finnland færu áfram og skildu Spánverja og Norður-Makedóna eftir með sárt ennið. Spánn vann einn sigur á mótinu og var það einmitt gegn botnliði Norður-Makedóníu sem tapaði öllum fimm leikjum sínum.

Rússland, sem byrjaði illa í upphafi móts, náði að spila sig betur saman þegar leið á riðlakeppnina og virðast vera að komast á flug fyrir útsláttarkeppnina. Það skal þó ekki tekið af liðum Hollands og Tyrklands að þau hafa komið skemmtilega á óvart með flottri spilamennsku.

D-riðill

Eins og við var að búast voru það lið Frakklands og Þýskalands sem báru höfuð og herðar yfir önnur lið í D-riðli. Þar á eftir komu Króatía, Lettland, Slóvakía og Eistland en lið Króatíu tryggði sér sæti í 16-liða úrslitunum fyrir lokaleiki riðilsins. Lettland, Slóvakía og Eistland börðust því um síðasta lausa sætið en Lettar höfðu fimm stig gegn þremur stigum Slóvakíu og Eistlands.

Síðasta keppnisdaginn mætti Slóvakía liði Þýskalands og Eistland mætti Frakklandi en liðin þurftu nauðsynlega á sigri að halda. Það gekk þó ekki eftir og Lettland náði 4. sæti riðilsins og jafnframt síðasta sætinu í 16-liða úrslitum.

16-liða úrslit

Laugardagur 11. september    15:30   Rússland – Úkraína

Laugardagur 11. september    18:30   Pólland – Finnland

Sunnudagur 12. september     14:00   Ítalía – Lettland

Sunnudagur 12. september     15:30   Holland – Portúgal

Sunnudagur 12. september     17:00   Þýskaland – Búlgaría

Sunnudagur 12. september     18:30   Serbía – Tyrkland

Mánudagur 13. september      14:00   Slóvenía – Króatía

Mánudagur 13. september      17:00   Frakkland – Tékkland