[sam_zone id=1]

Bandaríkin Þjóðadeildarmeistarar

Úrslitinn í Þjóðadeildinni hjá konunum fóru fram í gær og fyrradag en leikið er á Rimini í Ítalíu. Keppnin hefur verið jöfn og mjög skemmtileg hingað til og hefur verið gaman að fylgjast með bestu liðum heims etja keppi.

Það voru hinsvegar fjögur lið sem höfðu staðið sig best fram að þessu og mættust í undanúrslitum. Annarsvegar voru það Brasilía og Japan og hinsvegar Bandaríkin og Tyrkland en Bandaríkin þóttu sigurstranglegar enda unnið þessa keppni síðastliðinn tvö ár.

Í fyrsta leik undanúrslitanna mættust Brasilía og Japan. Brasilía byrjaði leikinn mun betur og unnu fyrstu tvær hrinur leiksins áður en Japan svaraði fyrir sig með sigri í þriðju hrinu. Brasilía sögðu þá hingað og ekki lengra og unnu fjórðu hrinuna 25-16 og leikinn þar með 3-1.

Brasilía – Japan 3-1 (25-15, 25-23, 29-31, 25-16)
Stigahæstar: Tandara Brasilía 23 stig, Koga Japan 18 stig

Í hinum undanúrslitaleiknum mættust Bandaríkin og Tyrkland, Bandaríkin með mikla sigurhefð í þessari keppni en Tyrkland með mjög spennandi lið sem gaman er að fylgjast með. Það voru þó Bandaríkin sem voru skrefinu á undan í þessum leik og unnu nokkuð sannfærandi sigur 3-0.

Bandaríkin – Tyrkland 3-0 (25-21, 25-23, 25-20)
Stigahæstar: Drews Bandaríkin 9 stig, Karakurt Tyrkland 17 stig

Það voru því Japan og Tyrkland sem mættust í leiknum um þriðja sætið. Þar var ljóst að það voru Tyrkir sem voru ákveðnari frá byrjun og ætluðu sér að ná í verðlaun á þessu móti. Japanir sáu aldrei til sólar í leiknum og unnu Tyrkir öruggan 3-0 sigur og tryggðu sér bronsverðlaun í Þjóðadeildinni.

Japan – Tyrkland 0-3 (19-25, 16-25, 17-25)
Stigahæstar: Koga Japan 11 stig, Karakurt Tyrkland 29 stig

Í úrslitum voru það svo stórveldin tvö Bandaríkin og Brasilía sem mættust en þessi lið hafa um árabil verið með bestu blaklandsliðum heims. Það var alveg ljóst frá byrjun að hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir og úr varð hörkuleikur tveggja frábæra liða. Það voru þó Bandaríkin sem að voru sterkari í lokin og unnu 3-1 sigur eftir mjög jafnan leik.

Brasilía – Bandaríkin 1-3 (28-26, 23-25, 23-25, 21-25)
Stigahæstar: Gabi Brasilía 18 stig, Bartsch-Hackley Bandaríkin 22 stig

Það eru því Bandaríkin sem eru sigurvegarar Þjóðadeildarinnar þriðja árið í röð og óskum við þeim til hamingju með þennan frábæra árangur.