[sam_zone id=1]

Bandaríkin frábær í sigri gegn Serbíu

Komið er að úrslitaleikjum í blakinu en undanúrslitin fóru fram í gær og í dag. Leikið verður til úrslita laugardag og sunnudag.

Undanúrslitaleikirnir karlamegin fóru fram í gær, fimmtudag, en kvennamegin var leikið í dag.

Undanúrslit karla

Leikur Brasilíu og rússnesku Ólympíunefndarinnar var sveiflukenndur til að byrja með en Brasilía vann fyrstu hrinu auðveldlega. Eftir það vöknuðu Rússarnir til lífsins og sneru talfinu sér í vil. Þeir unnu aðra hrinuna og náðu einnig að knýja fram sigur í þriðju hrinu þrátt fyrir að vera 19-12 undir. Fjórðu hrinuna unnu Rússarnir svo aftur naumlega og tryggðu sér þar með 1-3 sigur í leiknum. Brasilía þarf því að sætta sig við 3.-4. sæti og eru sigurstranglegir í bronsleiknum.

Frakkland og Argentína léku svo seinna um daginn en bæði lið unnu ótrúlega 3-2 sigra í 8-liða úrslitunum. Fyrsta hrina leiksins var frábær skemmtun en það voru Frakkar sem unnu hana naumlega. Í annarri hrinunni unnu Frakkarnir öllu þægilegri sigur, 25-19, og leiddu 2-0. Franska liðið virtist hafa yfirhöndina í þriðju hrinunni en náði ekki að slíta sig almennilega frá Argentínumönnum. Þeir héldu þó út og tryggðu sætið í úrslitaleiknum með því að vinna hrinuna 25-22 og leikinn þar með 3-0. Frakkland mætir þar með rússneska liðinu í úrslitaleiknum á laugardag.

Það segir sig sjálft að úrslitaleikurinn verði aðalatriðið á laugardag en bronsleikurinn mun ekki fara framhjá neinum. Lið Argentínu og Brasilíu hafa háð ófaar viðureignirnar í gegnum tíðina. Liðin mættust einnig í riðlakeppninni og þar fóru Brasilíumenn með 3-2 sigur eftir frábæran leik.

Brasilía 1-3 ROC (25-18, 21-25, 24-26, 23-25). Yoandy Leal var stigahæstur í liði Brasilíu með 18 stig en næstur kom Lucas Saatkamp með 13 stig. Í rússneska liðinu var Maxim Mikhaylov frábær og skoraði 22 stig en Egor Kliuka bætti við 15 stigum.

Frakkland 3-0 Argentína (25-22, 25-19, 25-22). Jean Patry var stigahæstur í liði Frakka með 15 stig og Trevor Clevenot skoraði 14 stig. Facundo Conte skoraði 13 stig fyrir Argentínu en næstur kom Bruno Lima með 9 stig.

Úrslit / Brons karla

Laugardagur 4:30      Argentína – Brasilía

Laugardagur 12:15    Frakkland – ROC

Undanúrslit kvenna

Lið Serbíu var af mörgum talið líklegast til að vinna mótið og eftir auðveldan sigur gegn Ítalíu í 8-liða úrslitunum virtust þær serbnesku vera í fantaformi. Bandaríkin höfðu hins vegar einnig spilað vel og unnu Dóminíska lýðveldið afar sannfærandi á leið sinni í undanúrslitin. Bandaríkin komu öllum á óvart með því að vinna fyrstu hrinu leiksins nokkuð þægilega, 19-25, og gerðu enn betur í annarri hrinu þegar þær völtuðu yfir Serbíu 15-25.

Í þriðju hrinu leiksins var loks komin spenna í leikinn. Bandaríkin byrjuðu hrinuna mun betur en Serbía en þær serbnesku héldu vel í við bandaríska liðið út hrinuna. Allt kom þó fyrir ekki og Bandaríkin unnu 23-25 sigur sem tryggði þeim 0-3 sigur í leiknum og sæti í úrslitaleiknum sjálfum. Afar óvænt úrslit en sanngjörn miðað við gang leiksins.

Brasilí mætti Suður-Kóreu í seinni undanúrslitaleiknum og þótti brasilíska liðið mun sigurstranglegra. Þær höfðu slegið út lið rússnesku Ólympíunefndarinnar í 8-liða úrslitunum en Suður-Kórea vann óvæntan sigur gegn Tyrklandi. Brasilía byrjaði mun betur og vann fyrstu tvær hrinurnar auðveldlega, báðar 25-16. Það sama var uppi á teningnum í þriðju hrinunni sem Brasilía vann aftur 25-16 og liðið vann leikinn því sannfærandi, 3-0.

Serbía 0-3 Bandaríkin (19-25, 15-25, 23-25). Tijana Boskovic var öflug í serbneska liðinu eins og alltaf og skoraði 19 stig en fékk litla hjálp. Hjá Bandaríkjunum Andrea Drews stigahæst með 17 stig en Jordan Larson kom næst með 15 stig.

Brasilía 3-0 Suður-Kórea (25-16, 25-16, 25-16). Fe Garay var stigahæst í liði Brasilíu með 17 stig en næst kom Gabi Guimares með 12 stig. Kim Yeon Koung og Jeongah Park skoruðu 10 stig hvor fyrir Suður-Kóreu.

Úrslit / Brons kvenna

Sunnudagur 00:00    Suður-Kórea – Serbía

Sunnudagur 04:00    Brasilía – Bandaríkin