[sam_zone id=1]

Bæði íslensku liðin töpuðu fyrstu leikjunum sínum

Ísland hóf leik á Nevza móti U19 liða snemma í morgun en mótið fer fram í Rovaniemi í Finnlandi.

Strákarnir hófu leik eldsnemma í morgun þegar þeir mættu Svíþjóð en þeir sænsku unnu þann leik 3-0 (25-20, 25-21, 25-15) þrátt fyrir góða mótspyrnu frá íslensku strákunum. Byrjunarlið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum: Hermann Hlynsson í uppspili, Valens Torfi Ingimundarson og Sölvi Páll Sigurpálsson á köntunum, Sigurður Kristinsson og Elvar Örn Halldórsson á miðjunum og Gísli Marteinn Baldvinsson í díó, þá spilaði Dren Morina stöðu frelsingja.

Þrátt fyrir erfiða byrjun í fystu hrinu þá náðu strákarnir sér á strik og héldu vel í þá sænsku. Það var ekki fyrr en undir miðja þriðju hrinu sem Svíþjóð náði að ýta þeim almennilega frá sér og því nokkuð ljóst að strákarnir eiga ekki langt í land.

Næsti leikur hjá strákunum er kl 10:30 þegar þeir mæti heimamönnum frá Finnlandi.

Stelpurnar mættu svo heimastúlkum frá Finnlandi í sínum fyrsta leik kl 8:15 að íslenskum tíma. Leiknum lauk með 3-0 (27-25, 25-21, 25-16) sigri Finnlands en þær íslensku létu þó vel finna fyrir sér og gáfu ekki tommu eftir. Byrjunarlið Íslands var skipað eftirfarandi leikmönnum: Jón Margrét Arnarsdóttir í uppspili, Líney Inga Guðmundsdóttir og Sóldís Björt Leifsdóttir á köntunum, Valdís Unnur Einarsdóttir og Sara Ósk Stefánsdóttir á miðjunni, Leijla Sara Hadziredzepovic í díó og þá spilaði Rut Ragnarsdóttir stöðu frelsingja.

Stelpurnar voru hársbreidd frá sigri í fyrstu hrinu en sú hrina tapaðist eftir upphækkun 27-25. Heimastúlkur höfðu alltaf forskot í annarri hrinu en þær íslensku voru þó aldrei langt á eftir. Það sem var helst til að stríða íslensku stelpunum var varnarleikurinn aftur á velli en full margir boltar komust í gólf án snertingar. Finnska liðið gekk svo á lagið í þriðju hrinu og komst þar yfir 8-0, forskot sem þær létu aldrei af hendi og unnu hrinuna örugglega 25-16.

Næsti leikur hjá stelpunum er kl 17:00 þegar þær mæta Svíþjóð.