[sam_zone id=1]

Bæði íslensku liðin í undanúrslit

Það var nóg um að vera hjá íslensku strandblaksliðunum í Skotlandi síðustu tvo daga en nú taka við undanúrslit.

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir höfðu betur gegn Thelmu Dögg Grétarsdóttur og Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttur þegar liðin tvö mættust í upphafi mótsins en bæði lið fóru áfram úr riðlinum eftir auðvelda sigra gegn skoska parinu Blair/Harris. Í dag fóru 8-liða úrslit keppninnar fram en þar unnu Berglind og Elísabet sannfærandi sigur gegn öðru skosku pari, Mclean/Fowler. Jóna og Thelma mættu hins vegar sterkasta skoska parinu, þeim Beattie/Coutts.

Í upphafi móts voru lið skráð á styrkleikalista og voru Beattie/Coutts efstar þar, á undan Berglindi og Elísabetu. Jóna og Thelma, sem voru aðeins skráðar tíunda sterkasta liðið enda nýbyrjarðar að spila saman, gerðu sér hins vegar lítið fyrir og unnu 2-1 sigur eftir æsispennandi leik. Þar með komust bæði íslensku liðin áfram í undanúrslit mótsins og eiga möguleika á að mætast í úrslitum. Thelma og Jóna mæta Morrison/Barbour klukkan 10:40 að staðartíma (9:40 á Íslandi) í fyrramálið en Berglind og Elísabet mæta Keefe/Tucker frá Englandi beint í kjölfarið, klukkan 11:30 (10:30 á Íslandi).

Úrslitaleikurinn kvennamegin fer fram klukkan 15:45 að staðartíma (14:45 á Íslandi) og er ekki ólíklegt að annað eða bæði íslensku liðin fari alla leið í úrslitin. Bronsleikurinn fer fram klukkan 14:00 að staðartíma (13:00 á Íslandi).