[sam_zone id=1]

Auðvelt hjá Íslandi í fyrsta leik

Ísland hóf leik á Smáþjóðamóti U-19 liða kvenna í gær þegar íslensku stelpurnar mættu liði Gíbraltar.

Leikið er á Laugarvatni að þessu sinni en auk Íslands taka lið Gíbraltar, Möltu og Færeyja þátt í keppninni. Fyrsti keppnisdagur var föstudagrinn 3. september og í fyrsta leiknum mætti Ísland liði Gíbraltar. Skemmst er að segja frá því að Ísland vann afar sannfærandi 3-0 sigur (25-4, 25-9, 25-5) og hafði augljósa yfirburði. Í seinni leiknum mættust svo Færeyjar og Malta en þar hafði færeyska liðið einnig auðveldan 3-0 sigur (25-8, 25-7, 25-7).

Í dag heldur fjörið áfram en Ísland mætir Möltu klukkan 14:00 og Færeyjar mæta Gíbraltar klukkan 17:00. Miðað við spilamennsku liðanna í gær mætti ætla að Gíbraltar og Malta muni berjast um 3.-4. sæti á mótinu en Ísland og Færeyjar um gullið. Ísland mætir Færeyjum á morgun, sunnudag, í leik sem verður því að öllum líkindum úrslitaleikur mótsins.

Leikjum mótsins er streymt frá Youtube-rás Blaksambands Íslands og má nálgast rásina með því að smella hér.

Mynd : BLÍ