[sam_zone id=1]

Auðvelt hjá Aftureldingu á heimavelli

Afturelding tók á móti Þrótti Fjarðabyggð í Mizunodeild kvenna í dag.

Leikurinn var sá fyrsti hjá Aftureldingu eftir bikarhelgina þar sem liðið tapaði í hörkuleik gegn verðandi bikarmeisturum HK. Þróttur Fjarðabyggð hefur hins vegar ekki leikið síðan 3. mars þegar liðið féll úr leik gegn KA í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Afturelding er við topp Mizunodeildarinnar, rétt á eftir HK, á meðan að Þróttur er í harðri baráttu við Álftanes og Þrótt Reykjavík um 4. sæti deildarinnar.

Tinna Rut Þórarinsdóttir lék sinn fyrsta leik með Þrótti á þessu tímabili. Hún sneri nýlega aftur til liðsins eftir að hafa leikið með Lindesberg í sænsku úrvalsdeildinni og spilaði allan leikinn í dag. Það voru þó heimakonur í Aftureldingu sem byrjuðu mun betur í fyrstu hrinu leiksins og náði munurinn tveggja stafa tölu um miðja hrinuna. Afturelding vann 25-15 en Þróttur gerði betur í annarri hrinunni. Þar náðu gestirnir 2-5 forystu sem dugði þó ansi skammt.

Afturelding jafnaði leikinn strax í 5-5 og byggði smám saman upp öruggt forskot. Undir lokin sá Þróttur ekki til sólar og stakk Afturelding af. Mosfellingar unnu aðra hrinu 25-14 og virtust Þróttarar ekki eiga nein svör við leik Aftureldingar. Þróttur náði loks að halda í við Aftureldingu í þriðju hrinunni en undir lokin fjaraði undan hjá gestunum. Afturelding vann hrinuna 25-21 og leikinn þar með 3-0. Liðin mætast aftur klukkan 13:30 á morgun og verða Þróttarar að gera betur ætli þeir að fá stig út úr þeim leik.

Afturelding er nú með 23 stig eftir 10 leiki en HK er enn í efsta sætinu með 24 stig eftir 9 leiki. KA er skammt undan með 20 stig eftir 10 leiki en bilið milli 3. og 4. sætis er stórt og deildin er í raun tvískipt. Í neðri hlutanum standa Álftnesingar best með 7 stig eftir 9 leiki en Þróttur Fjarðabyggð kemur næst með 6 stig eftir 10 leiki. Á botninum er svo Þróttur Reykjavík með 4 stig eftir 8 leiki.

Í kvöld fara tveir leikir fram í Mizunodeild karla en Afturelding og Vestri mætast að Varmá og hefst leikur þeirra klukkan 20:00. Á Akureyri tekur KA á móti Þrótti Vogum og hefst sá leikur ekki fyrr en klukkan 21:00.