[sam_zone id=1]

Annar heimasigur KA gegn Þrótti F

Einn leikur fór fram í úrvalsdeild karla en þar mættust KA og Þróttur Fjarðabyggð á Akureyri.

Þessa helgina fara nokkrir leikir fram í úrvalsdeildunum og jafnframt þeir síðustu fyrir jólafrí. Í dag fór aðeins einn leikur fram en það var viðureign KA og Þróttar Fjarðabyggð karlamegin. Þessi tvö lið eru í mikilli baráttu um 3. sæti deildarinnar en eins og staðan er í dag hafa Hamar og HK nokkurra stiga forystu á næstu lið deildarinnar. KA var fyrir leik dagsins með 13 stig eftir 10 leiki en Þróttur F með 13 stig eftir aðeins 8 leiki.

Þrátt fyrir að búist væri við nokkuð jöfnum leik var það ekki raunin í fyrstu hrinunni í dag. KA stakk af í upphafi hrinunnar og vann auðveldan 25-12 sigur. Allt aðra sögu var að segja um aðra hrinu en KA leiddi þó framan af. Þróttur F jafnaði leikinn í stöðunni 18-18 og skoraði næstu fjögur stig til viðbótar. Ekki dugði 20-23 forysta Þrótturum en KA stal sigrinum, 25-23, með góðum lokakafla.

Þriðja hrina leiksins var sú jafnasta til þessa en hvorugt lið náði að stinga af. Andri Snær Sigurjónsson dró vagninn fyrir Þrótt Fjarðabyggð í hrinunni en þar skoraði hann alls 12 stig. Eftir miklar sveiflur vann Þróttur F nauman 22-25 sigur og hélt lífi í leiknum.

Í fjórðu hrinunni byrjaði KA frábærlega og leiddi 5-0 þegar Þróttur F tók sitt fyrsta leikhlé. Það breytti litlu og hélt KA áfram að auka forystuna. KA vann sannfærandi sigur í hrinunni, 25-12, og vann leikinn þar með 3-1. Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur í liði KA með 22 stig en næstur kom Oscar Fernández Celis með 14 stig. Andri Snær Sigurjónsson skoraði 21 stig fyrir Þrótt F en Jaime Monterroso Vargas bætti við 7 stigum.

Með sigrinum lyftir KA sér upp fyrir Þróttara og eru nú með 16 stig eftir 11 leiki. Þróttur F er með 13 stig eftir 9 leiki en bæði lið eltast við Aftureldingu sem situr í 3. sæti deildarinnar með 18 stig eftir 10 leiki.

Á morgun eru fjórir leikir á dagskrá í úrvalsdeildunum en karlamegin mætast Fylkir og HK. Kvennamegin fara þrír leikir fram en í Mosfellsbæ tekur Afturelding á móti Völsungi. Álftanes fær svo lið HK í heimsókn og í Digranesi mætast Þróttur Reykjavík og KA. Eftir þessa þrjá leiki hefst jólafrí í úrvalsdeildunum og fara þær ekki af stað aftur fyrr en 11. janúar þegar karlaliðin hefja leik á ný.

Mynd : Þórir Tryggvason