[sam_zone id=1]

Annar 3-1 sigur hjá Norðfirðingum

Einn leikur fór fram í úrvalsdeild kvenna í dag en þá mættust Þróttur Fjarðabyggð og Þróttur Reykjavík í annað sinn þessa helgina.

Þessi sömu lið mættust í gær en þar fóru heimakonur í Þrótti Fjarðabyggð með 3-1 sigur af hólmi. Fyrstu tvær hrinurnar í gær voru algjörlega eign heimakvenna en seinni tvær hrinurnar voru afar sveiflukenndar. Það var því erfitt að segja til um hvað myndi gerast í dag þó Þróttur Fjarðabyggð væri líklegra liðið þegar litið var á leikinn fyrir fram.

Það voru þó gestirnir úr Reykjavík sem byrjuðu leikinn betur en þær unnu fyrstu hrinuna 20-25 eftir góðan viðsnúning. Heimakonur höfðu forystuna stærstan hluta fyrstu hrinu en Þróttur Reykjavík hafði yfirburði á lokakaflanum. Aftur náði Þróttur Fjarðabyggð forskoti snemma í annarri hrinu en í þetta skiptið héldu þær út og unnu hrinuna 25-17. Staðan þar með orðin jöfn, 1-1.

Heimakonur gerðu vel í þriðju hrinu og leiddu allt frá upphafi en náðu hins vegar ekki að slíta sig almennilega frá Reykvíkingum. Norðfirðingar héldu þó út og unnu hrinuna 25-20. Fjórða hrina var svo öllu auðveldari fyrir Þrótt Fjarðabyggð en liðið stakk af eftir miðbik hrinunnar og vann 25-17 sigur. Þróttur Fjarðabyggð vann leikinn þar með 3-1, líkt og í gær.

Þróttur Fjarðabyggð byrjar tímabilið því af miklum krafti og er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína. Næsti leikur Þróttar Fjarðabyggð verður þann 8. október gegn KA og fer hann fram á Akureyri. Þróttur Reykjavík mætir HK þann 5. október í Digranesi. Sá leikur er skráður heimaleikur HK en bæði lið leika heimaleiki sína í Digranesi þetta tímabilið.

Mynd : Sigga Þrúða