[sam_zone id=1]

Álftanes og KA með flotta sigra

Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeild kvenna í dag, í fyrsta leik dagsins mætti Álftanes liði Þróttar/Fjarðabyggðar í Forsetahöllinni.

Álftanes var fyrir leikinn tveim stigum á eftir Þrótti/Fjarðabyggð í töflunni og gat því með sigri farið upp fyrir þær og í fjórða sæti deildarinnar.
Álftanes byrjaði leikinn mjög vel og virtist eins og það væri einhver ferðaþreyta í liði Þróttar/Fjarðabyggðar en þeir unnu sig þó vel inn í leikinn og var fyrsta hrina mjög jöfn. Álftanes voru þó sterkari í lokinn og unnu hrinuna 25-22. Álftanes héldu áfram að spila mjög vel í leiknum og þær völtuðu yfir gestina í annari hrinu og unnu hrinuna 25-15 og komnar í góða stöðu í leiknum.
Þróttur/Fjarðabyggð kom til baka í þriðju hrinu og voru að spila mun betur, Álftanes voru þó ekki á því að gefast upp og héldu einnig áfram að spila vel. Úr varð hörkuhrina þar sem Álftanes voru enn og aftur sterkari aðillin og unnu hrinuna 25-21 og leikinn þar með 3-0.

Með sigrinum hoppar Álftanes upp fyrir Þrótt/Fjarðabyggð í töflunni og eru nú í fjórða sætinu með 7 stig á meðan Þróttur/Fjarðabyggð fylgir fast á eftir með 6 stig. Þessi lið mætast síðan aftur á morgun í Forsetahöllinni kl: 13:00 og verður fróðlegt að sjá hvort liðið hefur betur þar.

Í seinni leik dagsins mættust HK og KA í Digranesi, KA voru á toppnum og höfðu enn ekki tapað leik á meðan HK var á góðri siglingu í deildinni búnar að vinna 4 leiki í röð. Það var því von á hörkuleik í Digranesi í kvöld.

Bæðu lið voru ákveðin í fyrstu hrinu og ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa neitt eftir, KA náðu þó yfirhöndinni um miðja hrinu og gáfu það forskot aldrei eftir. Þær unnu fyrstu hrinuna 25-22.
Þetta virtist gefa KA aukakraft því þær hreinlega völtuðu yfir HK liðið í annari hrinunni sem endaði 25-13 fyrir KA og HK því komnar með bakið upp við vegg.
Þriðja hrinan var æsispennandi og ljóst að HK ætluðu að berjast til síðasta blóðdropa. Bæði lið sýndu frábær tilþrif og lítið bar á milli liðanna. Upphækkun þurfti til að skera úr um sigurvegara og þar voru það KA stelpur sem voru sterkari og unnu 27-25 og leikinn þar með 3-0.

Stigahæstar í leiknum voru Tea með 16 stig fyrir KA og Paula bætti við 13 stigum, hjá HK var það Lejla sem var atkvæðamest með 10 stig.
KA tryggir stöðu sína á toppnum með sigri og eru þær enn ósigraðar í ár. HK heldur enn fast í þriðja sætið þrátt fyrir tapið en nær ekki að saxa á forskot toppliðanna tveggja.