[sam_zone id=1]

Afturelding vann í Vogabæjarhöllinni

Þróttur Vogum lék í dag sinn fyrsta leik í efstu deild þegar liðið mætti Aftureldingu í Mizunodeild karla.

Lið Þróttar Vogum er að hefja sitt fyrsta tímabil í efstu deild en liðið lék í Benectadeildinni á síðasta tímabili. Piotr Kempisty tók við þjálfun liðsins en hann leikur einnig með liðinu. Í dag var hann uppspilari liðsins en Piotr leikur almennt sem kantsmassari eða díó. Lið Aftureldingar lék mjög vel í ofurbikar BLÍ á dögunum þar sem að liðið lenti í öðru sæti. Þeir mættu með sama hóp í Vogabæjarhöllina og voru fyrirfram taldir mun sigurstranglegri.

Leikurinn fór rólega af stað í fyrstu hrinu en smám saman náði Afturelding að byggja þægilegt forskot. Gestirnir unnu hrinuna 16-25 án mikilla vandræða. Heimamenn byrjuðu mun betur í annarri hrinu en það dugði þó skammt. Afturelding tók forystuna fljótlega og vann auðveldan 14-25 sigur. Þróttarar náðu sér vel á strik í þriðju hrinu og leiddu með fimm stigum um miðja hrinuna. Úr varð æsispennandi lokakafli þar sem að Afturelding vann 29-31 og tryggði 0-3 sigur.

Tölfræði úr leiknum er ekki aðgengileg.

Næsti leikur Þróttar Vogum er útileikur gegn HK þann 25. september en Afturelding spilar ekki fyrr en 7. október þegar liðið sækir KA heim á Akureyri.