[sam_zone id=1]

Afturelding vann í Digranesi

Einn leikur fór fram í úrvalsdeild kvenna í kvöld en þar mættust HK og Afturelding í Digranesi.

Fyrr í dag fóru þrír leikir fram í úrvalsdeild karla en í kvöld var komið að kvennadeildinni. Liðin sem mættust í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor, HK og Afturelding, mættust þá á heimavelli HK í Digranesi. Liðin mættust þó fyrr í haust þegar leikið var í Meistarakeppni BLÍ og þar hafði Afturelding sannfærandi sigur. Það þurfti því allt að ganga upp hjá HK ef þær ætluðu sér sigur.

Afturelding byrjaði af rosalegum krafti og átti ekki í neinum vandræðum með HK í fyrstu hrinunni. Gestirnir unnu hrinuna auðveldlega, 8-25, en dæmið snerist við í annarri hrinu. Þar leiddi HK 6-1 og hélt forystunni stærstan hluta hrinunnar. Undir lokin náði Afturelding hins vegar yfirhöndinni og vann aðra hrinu 23-25. Gestirnir úr Mosfellsbæ leiddu þar með 0-2 og útlitið svart fyrir HK.

Aftur byrjuðu heimakonur vel í þriðju hrinu en þær náðu þó aldrei að stinga af. Afturelding reyndist svo mun sterkari aðilinn undir lokin og vann þriðju hrinuna 18-25. Afturelding vann leikinn því 0-3 og hefur unnið báða deildarleiki sína sannfærandi. Heba Sól Stefánsdóttir skoraði 11 stig fyrir HK en næst kom Arna Sólrún Heimisdóttir með 7 stig. Hjá Aftureldingur var Thelma Dögg Grétarsdóttir stigahæst með 13 stig og María Rún Karlsdóttir bætti við 10 stigum.

Stutt er á milli leikja þessa dagana en HK mætir Þrótti Reykjavík strax á þriðjudag, 5. október. Afturelding mætir Álftanesi daginn eftir, miðvikudaginn 6. október, og svo liði KA þann 13. október. Eftir miðjan mánuðinn verður hlé gert á úrvalsdeildunum enda mikið um að vera hjá unglingalandsliðunum svo að leikmenn og þjálfarar verða á miklu flakki í október.

Mynd : Hafþór Hreiðarsson