[sam_zone id=1]

Afturelding vann á heimavelli

Afturelding og Álftanes mættust í kvöld í Mizunodeild kvenna.

Lið Aftureldingar hafði fyrir leik kvöldsins unnið báða sína leiki í Mizunodeild kvenna en Álftanes átti enn eftir að vinna leik. Fyrirfram var lið Aftureldingar talið mun líklegra og það voru Mosfellingar sem byrjuðu betur. Fyrsta hrinan var mjög jöfn en Afturelding rétt marði gestina 25-23. Önnur hrinan var hins vegar ekki jafn spennandi og lauk henni með þægilegum 25-14 sigri Aftureldingar.

Heimakonur í liði Aftureldingar virtust ætla að sigla sigrinum heim í þriðju hrinunni og leiddu 22-17. Þá kom góður kafli hjá Álftnesingum og Afturelding tók leikhlé í stöðunni 22-20. Ekki dugði það til og tók liðið sitt seinna leikhlé þegar staðan var orðin 22-23. Heimakonur skoruðu þá síðustu þrjú stigin og tryggðu sér nauman 25-23 sigur og unnu leikinn þar með 3-0.

Thelma Dögg Grétarsdóttir var stigahæst í liði Aftureldingar með 15 stig en María Rún Karlsdóttir kom næst með 13 stig. Hjá Álftanesi var Ísabella Erna Sævarsdóttir stigahæst með 6 stig en Dýrleif Hanna Sigmundsdóttir, Ásthildur Gunnarsdóttir og Sladjana Smiljanic skoruðu 5 stig hver.

Eftir þennan sigur er lið Aftureldingar með 8 stig af níu mögulegum eftir fyrstu þrjá leiki sína í Mizunodeildinni. Afturelding og HK eru einu taplausu lið deildarinnar en HK er með 9 stig, fullt hús, eftir þrjá leiki. Álftanes er með eitt stig eftir þrjá leiki.

Næsti leikur í Mizunodeild kvenna fer fram í Digranesi á sunnudag þegar Þróttur Reykjavík tekur á móti liði KA. Þennan sama sunnudag fara einnig fjórir leikir fram í Mizunodeild karla. Fylkir tekur á móti Þrótti Nes, Álftanes sækir Vestra heim, lið HK heimsækir Þrótt Vogum og að lokum mætast Hamar og Afturelding í Hveragerði.