[sam_zone id=1]

Afturelding tryggði sér oddaleik

Í kvöld mættust Afturelding og HK að Varmá í öðrum leik sínum um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki. HK var 1-0 yfir í einvíginu og þurfti sigur í kvöld til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Lið Aftureldingar var harðákveðið í að gefa HK ekki sigur í kvöld og tryggði sér oddaleik með 3-1 sigri.

Í byrjunnarliði HK var Matthildur í uppspili, Hjördís og Michelle á köntunum, Hanna María og Sara Ósk á miðjunum, Heba Sól í díóstöðu og Líney Inga frelsingi. Í byrjunnarliði Aftureldingar var Luz í uppspili, María Rún og Steinunn á köntunum, Valdís Unnur og Kristín Fríða á miðjunum, Thelma Dögg í díóstöðu og Velina  frelsingi.

Leikurinn fór jafnt af stað hjá liðunum en Afturelding var alltaf örlítið með yfirhöndina í hrinunni. HK virtist leggja upp með að slá sem mest í stöðu fimm hjá Aftureldingu á meðan Afturelding var meira að nýta sér að slá í hávörnina og niður hjá HK. Enn var allt jafnt í 14-14 þegar Afturelding fékk þrjú stig í röð og Emil Gunnarsson, þjálfari HK tók leikhlé. Leikhléið virtist duga því HK jafnaði strax í 17-17 og komst yfir í fyrsta sinn í leiknum 18-17. Borja, þjálfari Aftureldingar, tók þá einnig leikhlé og tók annað leikhlé í stöðunni 18-21 fyrir HK. Það dugði ekki til og stal HK hrinunni 22-25 eftir að vera undir nánast allan tímann.

Sömu byrjunnarlið voru hjá báðum liðum í annari hrinu. Afturelding fór fljótt að sigla frammúr HK og tók HK leikhlé í stöðunni 11-6. Eitthvað stress virtist komast yfir HK stúlkur því móttakan versnaði töluvert og þær byrjuðu að slá langt útaf. Rósa Dögg kom inná fyrir Matthildi í uppspilið í stöðunni 14-8 og Emil tók sitt annað leikhlé í stöðunni 18-9. Allt leit út fyrir að Afturelding færi með stórsigur í hrinunni en þær röðuðu inn hverju stiginu á fætur öðru. Borja, þjálfari Aftureldingar skipti Luz útaf fyrir Daníelu í uppspilið og við þá skiptingu virtist lið Aftureldingar hrynja. Luz fór útaf í stöðunni 21-13 en tók Afturelding leikhlé í stöðunni 21-15 eftir 3-6 kafla fyrir HK og aftur í stöðunni 23-19. Luz kom aftur inná í bálokin á hrinunni og að lokum var munurinn sem Afturelding hafi náð í byrjun hrinu of mikill og Afturelding fór með sigur í hrinunni 25-21.

Afturelding byrjuðu þriðju hrinuna mjög sterkt. Sömu byrjunnarlið voru hjá báðum liðum en Afturelding virtust tvíefldar eftir sigurinn úr síðustu hrinu. Þær komust í 3-0 og tók HK leikhlé í stöðunni 9-4 eftir að Afturelding hafði fengið fjögur stig í röð. HK átti þá góðan kafla og jafnaði leikinn í stöðunni 13-13 og Afturelding tók leikhlé. Afturelding hélt áfram að gefa í og tók HK leikhlé í stöðunni 22-15 en ekkert virtist stöðva Aftureldingu og kláruðu þær hrinuna nokkuð örugglega 25-17.

HK gerði eina breytingu á byrjunnarliði sínu í fjórðu hrinu en það var Lejla Sara sem kom inná í díóstöðuna í stað Hebu. Lejla átti mjög sterka innkomu inn í lið HK með góðum sóknum og hávörnum. HK náði fljótt yfirhöndinni í hrinunni og tók Afturelding leikhlé í stöðunni 3-8. HK nýtti sér breidd liðsins í hrinunni og notaði einnig Helenu sem uppgjafarsérfræðing. Afturelding tók sitt annað leikhlé í stöðunni 4-11. Afturelding skipti Hildi inn fyrir Steinunni og áttu þær frábæran kafla og neyddu Emil, þjálfara HK, til þess að taka leikhlé í stöðunni 9-13 og aftur í stöðunni 16-17. Rósa Dögg kom inn fyrir Matthildi í uppspilið í stöðunni 18-17 og virtist það kveikja í liði HK sem skoraði fjögur stig í röð og komst í 18-21. Aftureldin jafnaði aftur í 21-21 eftir ás frá Thelmu og skipti Emil þá Hebu inn fyrir Lejlu. Afturelding gerði einnig breytingu á liðinu sínu en Daníela kom inn í uppspilið fyrir Luz til að hækka hávörnina. Afturelding var sterkari aðilinn undir lok hrinunnar og tryggði sér sigur í hrinunni 25-22 og sigur í leiknum, 3-1.

Með sigrinum í kvöld tryggði Afturelding sér hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn sem fer fram á laugardaginn kl 14  í Fagralundi.