[sam_zone id=1]

Afturelding tók öll þrjú stigin

Einn leikur fór fram í úrvalsdeild karla í dag en þar mættust Afturelding og Vestri í Mosfellsbæ.

Keppni hófst í úrvalsdeild karla í gærkvöldi þegar KA vann 3-2 sigur á Þrótti Fjarðabyggð en í dag mættust Afturelding og Vestri. Leikurinn fór fram á heimavelli Aftureldingar að Varmá. Afturelding mætti Hamri í meistarakeppni BLÍ síðastliðinn miðvikudag og höfðu því fengið einn leik til að undirbúa sig. Vestri mætti hins vegar til leiks með nokkuð breytt lið, þar á meðal tvo nýja spænska leikmenn.

Afturelding byrjaði leikinn betur og náði mest fjögurra stiga forystu í upphafi hrinunnar en fljótlega var leikurinn orðinn jafn. Um miðja hrinu var allt í járnum og það var ekki fyrr en undir lok hrinunnar sem Vestri skaust fram úr og vann 22-25 sigur.

Aftur byrjuðu Mosfellingar betur í annarri hrinu en líkt og í þeirri fyrstu jafnaði Vestri fljótlega. Í þetta skiptið var Afturelding sterkari á lokakaflanum og vann 25-19. Afturelding hélt uppteknum hætti í þriðju hrinu og vann þægilegan 25-17 sigur. Afturelding leiddi því 2-1 og var í góðri stöðu.

Fjórða hrinan var sú jafnasta í leiknum en hvorugt lið náði að byggja upp forskot að ráði. Eftir hörkubaráttu undir lokin vann Afturelding 26-24 og tryggði sér því 3-1 sigur og öll þrjú stigin úr leiknum.

Sigþór Helgason var stigahæstur hjá Aftureldingu með 22 stig en næstur kom Mason Casner með 10 stig. Hjá Vestra var Hafsteinn Már Sigurðsson stigahæstur með 17 stig og Carlos Eduardo bætti við 15 stigum.

Liðin mætast öðru sinni á morgun klukkan 13:00.