[sam_zone id=1]

Afturelding skaust á toppinn

Í kvöld fór fram stórleikur í Mizunodeild kvenna þar sem að HK tók á móti Aftureldingu í Fagralundi.

HK var fyrir leik á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 15 stig eftir fimm leiki. Afturelding kom þar skammt á eftir með 12 stig og hafði einnig spilað fimm leiki. Afturelding gat því jafnað við HK á toppnum með 0-3 eða 1-3 sigri. Bæði lið komu til leiks með sitt sterkasta lið og því allt sem benti til þess að áhorfendur heima við myndu fá spennandi leik.

Fyrsta hrina var, líkt og við var að búast, afar jöfn og spennandi. Um miðja hrinu kom sterkur kafli hjá gestunum úr Mosfellsbæ sem leiddu skyndilega 10-15. HK jafnaði leikinn strax í 15-15 en Afturelding skoraði 4 stig í röð undir lok hrinunnar og vann hana 21-25. Önnur hrina gekk svipað fyrir sig og sú fyrsta þar sem að Afturelding leiddi um miðja hrinu. Aftur minnkaði HK muninn og varð lokakaflinn æsispennandi. Afturelding vann 24-26 og leiddi nú 0-2.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með í fyrstu tveimur hrinum leiksins en Afturelding valtaði yfir HK-inga til að byrja með í þriðju hrinu. HK náði að minnka muninn en Afturelding hélt þó þægilegu forskoti stærstan hluta hrinunnar. Afturelding vann hrinuna 19-25 og vann leikinn þar með 0-3.

Stigahæst í liði HK var Michelle Traini með 13 stig en Hjördís Eiríksdóttir og Sara Ósk Stefánsdóttir skoruðu 6 stig hvor. María Rún Karlsdóttir var stigahæst í liði Aftureldingar með 16 stig en Thelma Dögg Grétarsdóttir kom næst með 13 stig.

Afturelding kemst þar með á topp deildarinnar. Bæði lið eru með 15 stig eftir 6 spilaða leiki en Afturelding er með betra hrinuhlutfall en HK. Bæði lið spila næst þann 17. febrúar og leika bæði lið jafnframt á heimavelli. Afturelding tekur á móti Álftanesi í Mosfellsbæ en HK fær Þrótt Reykjavík í heimsókn í Fagralund. Þessa helgina fara einnig fram fjórir leikir í Mizunodeild kvenna en Þróttur Fjarðabyggð og Álftanes mætast tvívegis í Neskaupstað. Þá mætast KA og Þróttur Reykjavík einnig tvívegis og fara leikir þeirra fram á Akureyri.