[sam_zone id=1]

Afturelding sannfærandi gegn Þrótti R

Afturelding tók á móti Þrótti Reykjavík í leik kvöldsins í úrvalsdeild kvenna.

Keppni hélt áfram í úrvalsdeild kvenna í kvöld þegar Þróttur Reykjavík lagði leið sína í Mosfellsbæ og mætti þar liði Aftureldingar. Mosfellingar voru fyrir leikinn með 12 stig eftir fimm leiki en Þróttur Reykjavík án stiga eftir fimm leiki. Það var því nokkuð ljóst að Afturelding væri sigurstranglegri aðilinn fyrirfram og þær byrjuðu betur í fyrstu hrinu leiksins.

Afturelding var skrefi á undan framan af fyrstu hrinunni en það var ekki fyrr en um miðbik hennar sem heimakonur stungu gjörsamlega af. Níu stig í röð hjá Aftureldingu tryggðu þeim öruggan 25-17 sigur í hrinunni og ekki skánaði það fyrir Þróttara í annarri hrinu leiksins.

Aftur var nokkuð jafnt í upphafi hrinu en í þetta skiptið skoruðu Aftureldingarkonur heil tíu stig í röð og varð eftirleikurinn auðveldur. Heimakonur unnu 25-16 og virtust ætla að sigla öruggum sigri í höfn. Afturelding náði strax öruggu forskoti í þriðju hrinunni og vann að lokum 25-13. Þar með vann Afturelding leikinn 3-0 og jafnar við lið KA á toppi deildarinnar. Afturelding hefur þó spilað sex leiki gegn fimm leikjum KA.

Næstu leikir í úrvalsdeild kvenna fara fram um helgina en hvorki Afturelding né Þróttur R leika þessa helgi. Næsti leikur Þróttar R verður heimaleikur gegn Álftanesi þann 28. nóvember en Afturelding mætir KA þann 4. desember í Mosfellsbæ. Þar getur lið Aftureldingar gert toppbaráttuna æsispennandi með sigri en fari svo að KA vinni verða norðankonur í frábærum málum á toppi deildarinnar.