[sam_zone id=1]

Afturelding og Völsungur í undanúrslit Kjörísbikarsins

Keppni hélt áfram í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins í dag þegar leikið var í bæði karla- og kvennaflokki.

Keppni í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins var nú þegar langt komin fyrir daginn í dag en þrír af fjórum kvennaleikjum fóru fram á miðvikudag. Þá höfðu tveir af fjórum karlaleikjum farið fram í vikunni. Í dag mættust Völsungur og Álftanes kvennamegin en hjá körlunum voru það Afturelding og KA sem mættust í Mosfellsbæ.

Á Húsavík tóku heimakonur á móti Álftnesingum en Völsungur er á toppnum í 1. deild kvenna. Álftanes leikur hins vegar í Mizunodeildinni og var sigurstranglegra fyrir leikinn. Það voru hins vegar heimakonur sem byrjuðu mun betur og leiddu 6-1 í fyrstu hrinu. Húsvíkingar voru skrefinu á undan framan af hrinunni en Álftanes jafnaði leikinn og var lokakaflinn æsispennandi. Völsungur vann að lokum 26-24 sigur og leiddi leikinn þar með 1-0.

Spennan var ekki síðri í annarri hrinu og hélt Völsungur áfram að þjarma að Álftanesi. Völsungur hafði yfirhöndina og náði mest 5 stiga forystu um miðja hrinu. Álftanes jafnaði undir lokin, 24-24, og tóku heimakonur leikhlé. Það dugði til og aftur vann Völsungur 26-24. Heimakonur voru þar með í góðri stöðu, 2-0 yfir, en munurinn á liðunum var afar lítill og alls ekki hægt að afskrifa Álftnesinga.

Álftanes gerði mun betur í þriðju hrinunni og hafði þægilega forystu út hrinuna. Álftanes vann hrinuna auðveldlega, 12-25, og virtust gestirnir vera komnir með blóð á tennurnar. Aftur byrjaði Álftanes vel í fjórðu hrinu og var mun sterkari aðilinn. Þær unnu hrinuna 20-25 og réðust úrslitin því í oddahrinu. Þar var allt hnífjafnt en skipt var um vallarhelming í stöðunni 8-7, Völsungi í vil. Liðin skiptust á að skora undir lokin en það voru heimakonur í Völsungi unnu 15-13 og unnu þennan æsispennandi leik þar með 3-2.

Að leik loknum var dregið í undanúrslit Kjörísbikars kvenna en þeir leikir fara fram föstudaginn næstkomandi, 12. mars. Fyrsta liðið sem kom upp úr pottinum var lið KA og mæta þær Völsungi kl. 17:00 í Digranesi. Seinna um kvöldið mætast svo Afturelding og HK í hinum undanúrslitaleiknum og hefst sá leikur kl. 20:00.

Afturelding mætti KA í karlaleik dagsins og var búist við hörkuleik þar. Liðin eru á svipuðu róli í Mizunodeildinni og síðasta leik liðanna lauk með 3-2 sigri KA á Akureyri. Í þetta skiptið lék Afturelding hins vegar á heimavelli og fróðlegt að sjá hvort það myndi gera gæfumuninn. Jafnt var til að byrja með í fyrstu hrinunni en um miðja hrinuna náði Afturelding yfirhöndinni. Þeir unnu sannfærandi sigur eftir góðan lokakafla, 25-19.

Jafnræði var með liðunum í byrjun annarrar hrinu en um miðja hrinu tóku heimamenn forystuna. Þeir leiddu mest með 7 stigum og unnu aftur öruggan sigur þrátt fyrir að KA lagaði stöðuna aðeins undir lokin. Afturelding leiddi því 2-0 og farið að glitta í sætið í undanúrslitunum. Afturelding valtaði yfir KA í upphafi þriðju hrinu og náði 9-3 forystu áður en KA vaknaði til lífsins. Hrinan var sveiflukennd en Afturelding var yfirleitt skrefi á undan.

Þegar leið á hrinuna jókst forysta heimamanna sem voru afar sannfærandi. Afturelding vann hrinuna 25-19 og leikinn þar með 3-0. Mosfellingar slógu KA þar með út úr Kjörísbikarnum og eru komnir í undanúrslitin. Þar verða einnig lið Hamars og HK en síðasti leikurinn karlamegin fer fram á morgun þegar Fylkir tekur á móti Vestra í Árbænum.

Úrslit dagsins

Völsungur 3-2 Álftanes (26-24, 26-24, 12-25, 20-25, 15-13).

Afturelding 3-0 KA (25-19, 25-20, 25-19). Stigahæstur hjá Aftureldingu var Sigþór Helgason með 17 stig en Mason Casner og Sebastian Sævarsson Meyer skoruðu 7 stig hvor. Hjá KA var Miguel Mateo Castrillo stigahæstur með 10 stig en Oscar Fernandez Celis og Alexander Arnar Þórisson skoruðu 8 stig hvor.