[sam_zone id=1]

Afturelding og KA unnu sína leiki

Fjórir leikir fóru fram í Mizunodeildunum í dag, þar af þrír í Mizunodeild kvenna.

HK tók á móti Aftureldingu í Fagralundi en Afturelding þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að eiga möguleika á fyrsta sæti deildarinnar. HK sat í 4. sæti deildarinnar fyrir leikinn en hafði að litlu að keppa. Liðið lýkur deildinni í 4. sætinu og fer í úrslitakeppnina sem hefst í apríl.

Afturelding reyndist mun sterkara liðið í leiknum og hafði mikla yfirburði í fyrstu hrinu sem lauk 12-25. Önnur hrina var æsispennandi en að lokum hafði Afturelding betur, 22-25. Gestirnir kláruðu svo leikinn með því að vinna þriðju hrinu 18-25.

Hjá HK var Laufey Björk Sigmundsdóttir stigahæst með 9 stig en Hjördís Eiríksdóttir skoraði 8 stig. Thelma Dögg Grétarsdóttir skoraði 18 stig fyrir Aftureldingu og Ana Maria Vidal Bouza bætti við 10 stigum.

Þróttur Nes mætti Álftnesingum í Forsetahöllinni en liðin berjast um 5.-6. sæti deildarinnar. Hvorugt liðið á möguleika á því að komast í úrslitakeppnina en einungis tveimur stigum munaði á liðunum fyrir leikinn.

Jafnræði var með liðunum í fyrstu hrinu en góður kafli Álftnesinga undir lokin tryggði þeim 25-22 sigur. Aðra hrinu vann Álftanes sömuleiðis 25-22 og leiddi 2-0. Heimakonur stungu af í þriðju hrinu og unnu öruggan 25-17 sigur. Þær unnu leikinn því 3-0 og hirtu öll þrjú stigin.

Sladjana Smiljanic skoraði 14 stig fyrir Álftanes en Ragnheiður Tryggvadóttir kom næst með 11 stig. Tinna Rut Þórarinsdóttir var stigahæst hjá Þrótti Nes með 12 stig og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir skoraði 11 stig.

Þróttur Reykjavík sótti KA heim á Akureyri en KA getur með sigrum í síðustu tveimur leikjum sínum tryggt deildarmeistaratitilinn. Þróttur R hafði hins vegar tryggt sér 3. sæti deildarinnar og gat ekki náð KA eða Aftureldingu á toppnum.

KA vann leikinn auðveldlega, 3-0, og var lítil spenna í leiknum fyrir utan þriðju hrinuna. Hrinunum lauk 25-14, 25-11 og 25-21. KA heldur því toppsæti deildarinnar þegar KA og Afturelding eiga einungis enn leik eftir.

Paula Del Olmo Gomez skoraði 21 stig fyrir KA og Helena Kristín Gunnarsdóttir kom næst með 19 stig. Hjá Þrótti R var Eldey Hrafnsdóttir stigahæst með 5 stig og Katla Hrafnsdóttir bætti við 4 stigum.

Lokaleikur dagsins var leikur Álftnesinga gegn Þrótti Nes í karladeildinni. Þróttur Nes er í efsta sæti deildarinnar en er í harðri baráttu við HK. Álftanes er hins vegar í mikilli baráttu við KA um 3. sætið.

Fyrstu tvær hrinur leiksins voru æsispennandi og unnu liðin eina hrinu hvor með minnsta mun, 25-23. Þróttur Nes vann þriðju hrinuna 18-25 og virtist ætla að sigla sigrinum heim en Álftanes lék vel í fjórðu hrinu og vann hana 25-17. Í oddahrinunni voru gestirnir sterkari og unnu 11-15. Þeir hafa nú fjögurra stiga forskot á HK sem mætir Vestra á morgun.

Mason Casner skoraði 17 stig fyrir Álftanes og Róbert Karl Hlöðversson kom næstur með 12 stig. Hjá Þrótti Nes var Þórarinn Örn Jónsson stigahæstur með 20 stig og Jesus Maria Montero Romero skoraði 17 stig.