[sam_zone id=1]

Afturelding og KA unnu sína leiki

Keppni hélt áfram í úrvalsdeild kvenna í kvöld en tveir leikir fóru fram fyrir norðan.

Í gærkvöldi hófst úrvalsdeildin kvennamegin þegar HK vann nauman sigur gegn Álftanesi en í dag hélt fjörið áfram með tveimur leikjum til viðbótar. Völsungur tók á móti Aftureldingu á Húsavík og KA fékk Þrótt Reykjavík í heimsókn. Aðeins Afturelding hafði leikið mótsleik á þessu tímabili en liðið vann meistarakeppni BLÍ í síðustu viku.

Völsungur – Afturelding

Völsungur kom upp í úrvalsdeildina fyrir þetta tímabil og var liðinu skellt beint í djúpu laugina í fyrsta leik. Afturelding er liðið sem talið er líklegast til afreka þennan veturinn en liðið er einnig ríkjandi Íslandsmeistari. Afturelding byrjaði leikinn af miklum krafti og ætlaði augljóslega ekki að gefa neitt eftir. Mosfellingar unnu fyrstu hrinu 9-25 en betur gekk hjá Völsungi í annarri hrinu.

Þar náðu heimakonur upp í 18 stig en Afturelding vann svo þriðju hrinu 13-25 og vann leikinn því örugglega, 0-3. Heiðdís Edda Lúðvíksdóttir var stigahæst í liði Völsungs með 9 stig en Thelma Dögg Grétarsdóttir skoraði 19 stig fyrir Aftureldingu.

Mynd : Hafþór Hreiðarsson

KA – Þróttur Reykjavík

Á Akureyri mættust KA og Þróttur Reykjavík en þessi lið áttu nokkra spennandi leiki á síðasta tímabili. Liðin hafa tekið tiltölulega fáum breytingum en helst má nefna að Eldey Hrafnsdóttir er komin aftur í lið Þróttar Reykjavíkur eftir stutta fjarveru. KA bætti nýverið við sig erlendum leikmanni en Tea Andric leikur með liðinu í vetur. KA byrjaði leikinn afar vel og vann fyrstu hrinuna auðveldlega, 25-12.

Þróttarar komust betur inn í leikinn í annarri hrinu en KA vann hana þó einnig, 25-22, og náði 2-0 forystu á heimavelli. Þróttarar héldu áfram að gera vel og unnu þriðju hrinun 23-25 en KA kláraði leikinn með naumum 25-22 sigri í fjórðu hrinunni. KA vann leikinn því 3-1 og byrjar tímabilið vel.