[sam_zone id=1]

Afturelding með baráttusigur á Akureyri

Kvennalið KA og Aftureldingar mættust í kvöld í opnunarleik Mizunodeildanna tímabilið 2020/21.

Þessi tvö lið voru þau öflugustu á síðasta tímabili og eru bæði lið með sterka hópa nú þegar nýtt tímabil er að hefjast. Uppspilarinn Luz Medina skipti úr KA yfir í Aftureldingu í fyrra og gæti hún gert gæfumuninn fyrir Aftureldingu í vetur. Jóna Margrét hjá KA stóð sig þó geysivel í fyrra og var valin besti uppspilari Mizunodeildar kvenna af liðum og þjálfurum deildarinnar.

Afturelding byrjaði fyrstu hrinu leiksins af miklum krafti og virtist ætla að vinna hrinuna þægilega. Um miðja hrinu sneri KA hins vegar taflinu sér í vil og vann svo hrinuna 25-21. Norðankonur héldu áfram að spila af krafti í annarri hrinu og unnu hana sömuleiðis 25-21. Afturelding náði sér betur á strik í þriðju hrinu og náði snemma góðri forystu. Unnu gestirnir þægilegan 17-25 sigur í þriðju hrinu og minnkuðu muninn í 2-1.

Fjórða hrinan var æsispennandi og var allt í járnum framan af. Jafnt var í stöðunni 20-20 en þá skoraði Afturelding fimm stig í röð og kláraði hrinuna 20-25 og sendi leikinn í oddahrinu. Mikið jafnræði var með liðunum í oddahrinunni en Afturelding reyndist sterkari aðilinn og vann hrinuna 11-15. Afturelding vann leikinn því 2-3 eftir að hafa lent 2-0 undir.

Ekki er hægt að nálgast formlega tölfræði úr leiknum þegar þetta er skrifað en samkvæmt KA TV var Paula Del Olmo Gomez stigahæst hjá KA með 24 stig en Thelma Dögg Grétarsdóttir átti stórleik í liði Aftureldingar og skoraði 30 stig.

Á laugardag og sunnudag eru fjölmargir leikir á dagskrá en Mizunodeild karla hefst á laugardagskvöld með leikjum Fylkis gegn KA annars vegar og Hamars gegn Þrótti Nes hins vegar. Þá sækir Afturelding nýliðana í Þrótti Vogum heim í Mizunodeild karla á sunnudag. Þróttur R og Þróttur Nes mætast svo tvívegis um helgina í Mizunodeild kvenna, á laugardag og sunnudag.