[sam_zone id=1]

Afturelding mætir Hamri í úrslitum Kjörísbikarsins

Afturelding og HK mættust í síðari undanúrslitaleik Kjörísbikars karla í Digranesi í dag.

Fyrsta hrinan var vægast sagt skrautleg. Aftureldingarmenn hófu leikinn af gríðarlegum krafti og virtust ætla að valta yfir HK. Þeir voru mest 8 stigum yfir, í stöðunni 15-7, en þá vöknuðu HK til lífsins. HK minnkuðu muninn hratt og jöfnuðu í stöðunni 18-18. Þeir gáfu ekkert eftir það sem eftir lifði hrinu og unnu hana 20-25.

Það var gífurleg spenna í annarri hrinunni og þurfti langa upphækkun til að ljúka henni. HK héldu áfram að leika vel og leiddu 2-7. Afturelding höfðu þá fengið nóg og skoruðu næstu 6 stig og komust yfir. Liðin skiptust á að leiða út alla hrinuna og fengu þau bæði tækifæri til að vinna hrinuna. Það var þó ekki fyrr en í stöðunni 33-32 fyrir Aftureldingu sem Sebastian Sævarsson Meyer kláraði hrinuna með ási og Afturelding jafnaði leikinn, 1-1.

Spennan hélt áfram í þriðju hrinunni þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna. Afturelding var í lykilstöðu í stöðunni 23-20 en HK skoruðu þá 3 stig í röð og jöfnuðu. Aftur þurfti upphækkun til að klára hrinuna og aftur voru það Aftureldingarmenn sem voru sterkari undir lokin. Þeir unnu hrinuna 26-24 og komust því 2-1 yfir í hrinum.

HK hófu fjórðu hrinuna af krafti og komust 6 stigum yfir mjög snemma. Það entist þó ekki lengi þar sem Afturelding skoruðu 8 stig í röð með Sebastian Sævarsson Meyer í uppgjafarreitnum og tóku sjálfir fjögurra stiga forystu. Spennan var áþreifanleg undir lokin og þurfti upphækkun, þriðju hrinuna í röð. HK unnu hrinuna 24-26 og knúðu þar með fram oddahrinu.

Oddahrinan var minnst spennandi hrina leiksins þar sem Afturelding tók forystuna strax í upphafi. HK sá aldrei til sólar og vann Afturelding hrinuna 15-8 og leikinn þar með 3-2.

Sigþór Helgason átti stórleik fyrir Aftureldingu og skoraði 35 stig. Hjá HK var Andreas Hilmir Halldórsson stigahæstur, en hann skoraði 22 stig.

Afturelding mætir Hamri í úrslitaleiknum á morgun klukkan 15:30 í Digranesi, en hægt verður að horfa á hann í beinni útsendingu á RÚV.