[sam_zone id=1]

Afturelding er Íslandsmeistari 2021

HK og Afturelding mættust í dag í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. Afturelding fór með 0-3 sigur í leiknum og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn í blaki í efstu deild kvenna.

Í byrjunnaliði HK voru Matthildur í uppspili, Hjördís og Michelle á köntunum, Hanna María og Sara á miðjunni, Heba Sól í díóstöðu og Elsa Sæný og Líney í stöðu frelsingja. Í byrjunnarliði Aftureldingar var Luz í uppspili, Steinunn og María Rún á köntunum, Valdís Unnur og Kristín Fríða á miðjunni, Thelma Dögg í díóstöðu og Velina í stöðu frelsingja.

Leikurinn fór jafnt af stað en Afturelding náði hægt og rólega smá forskoti um miðja hrinu. Allt var í járnum alla hrinuna og tók HK leikhlé í stöðunni 18-20 og svo tók Afturelding leikhlé í stöðunni 22-23. Afturelding kláraði síðan  hrinuna 22-25 eftir frábæra hávörn frá Kristínu Fríðu.

Sömu byrjunnarlið voru í annari hrinu hjá báðum liðum. Afturelding virtust fullar af sjálfstrausti eftir að hafa sigrað fyrstu hrinuna og byrjuðu þær vel og komust í 1-4. Spennustigið hjá HK virtist vera of hátt í byrjun hrinunnar, þær klúðruðu uppgjöfum, fóru í netið, og gerðu klaufamistök. Emil Gunnarsson, þjálfari HK fékk einnig gult eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu vegna dómgæslu. Afturelding hélt áfram að vera með sterkar hávarnir og uppgjafir og pressuðu þær lið HK mikið. Laufey Björk kom inn í stað Hebu í stöðunni 5-8 í díóstöðuna. HK tók sitt annað leikhlé í stöðunni 11-16 eftir 1-5 kafla hjá Aftureldingu. Edda Björk kom inná fyrir Matthildi í uppspilið í stöðunni 11-19 og Arna Sól kom inn fyrir Söru á miðjuna í 12-19. Þessar breytingar höfðu jákvæð áhrif á lið HK og tók Afturelding leikhlé í stöðunni 17-23. Afturelding kláraði hrinuna 19-25 en hefðu getað unnið mun stærri sigur drepið niður lið HK en þess í stað gaf Afturelding liði HK von og baráttuvilja fyrir næstu hrinu.

Enn voru sömu byrjunnarlið hjá báðum liðum í þriðju hrinu. Hrinan fór jafnt af stað og var allt jafnt í stöðunni 11-11. Edda Björk kom aftur inn fyrir Matthildi í uppspilið, líkt og í síðustu hrinu, og tók Emil leikhlé fyrir HK í stöðunni 12-12. Eftir leikhlé byrjaði lið HK að slá laust inn á miðjan völl Aftureldingar og lauma beint í gólf. Á sama tíma byrjaði Afturelding að slá beint í netið og útaf. Borja Gonzales, þjálfari Aftureldingar, tók því leikhlé í stöðunni 16-13 fyrir HK. Strax eftir leikhlé lenti Steinunn, leikmaður Aftureldingar, í því óhappi að slasast á vinstra hné og kom Hildur í hennar stað á kantinn. Matthildur kom síðan aftur inn í uppspilið í stað Eddu í stöðunni 19-17 og Afturelding jafnaði leikinn í 19-19. Enn var allt jafnt í 22-22 og 23-23 þegar HK tók leikhlé og tók Afturelding síðan leikhlé í 24-23. Aftur var allt jafnt í stöðunni 25-25 eftir frábæra sókn frá Michelle fyrir HK en Thelma Dögg svaraði í sömu mynt fyrir Aftureldingu og kom sínu liði í 25-26. Afturelding kláraði síðan leikinn fyrir Aftureldingu með laumu beint í gólf. Lokastaða í hrinunni 25-27 og í leiknum 0-3.

Stigahæst í leiknum var Hjördís Eiríksdóttir með 17 stig. Stigahæst í liði Aftureldingar var María Rún með 15 stig og Thelma með 11 stig.