[sam_zone id=1]

Aftur vann KA á Akureyri

Í kvöld mættust KA og Fylkir öðru sinni þessa helgina og fór leikurinn fram á Akureyri.

Þessi sömu lið mættust í gær en þar vann KA nokkuð öruggan 3-0 sigur á Fylkismönnum. Heimamenn voru yfirleitt skrefinu á undan í leiknum og sat KA í 5. sæti deildarinnar með 10 stig eftir þann sigur. Liðið gat lyft sér upp í 3. sæti deildarinnar með öðrum sigri í kvöld en Fylkir er þessa stundina í baráttunni um 6.-7. sæti.

Heimamenn í KA voru mun betri aðilinn snemma í fyrstu hrinu en Fylkir minnkaði muninn þó um miðja hrinuna. Það dugði skammt hjá gestunum, KA átti ekki í miklum vandræðum og vann hrinuna 25-14. Önnur hrina leiksins var mun jafnari en þar voru það Fylkismenn sem voru skrefinu á undan. KA minnkaði muninn í eitt stig undir lok hrinunnar en Fylkir gerði vel og vann 22-25 sigur til að jafna leikinn 1-1.

KA náði sér aftur á strik í þriðju hrinunni en eftir miðbik hennar átti Fylkir frábæran kafla. Þeir jöfnuðu leikinn 20-20 og varð lokakaflinn æsispennandi. KA vann að lokum 26-24 og tók forystuna aftur. Fylkir hélt góðu gengi sínu áfram í fjórðu hrinu og leiddi 3-7 í upphafi hrinunnar. Aftur var mikið um sveiflur í hrinunni og KA leiddi seinni hluta hrinunnar. Fylkir gaf mikið eftir undir lokin og KA vann sannfærandi 25-19 sigur sem tryggði þeim 3-1 sigur í leiknum.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur hjá KA með 24 stig en næstur kom Oscar Fernández Celis með 16 stig. Hjá Fylki skoraði Atli Fannar Pétursson 12 stig en Austris Bucovskis og Ragnar Már Garðarsson bættu við 10 stigum hvor.

Með sigrunum tveimur um helgina lyftir KA sér alla leið upp í 3. sæti deildarinnar en hefur þó spilað flesta leiki allra liða eða átta talsins. Fylkir er enn í 7. sætinu með fjögur stig úr sjö leikjum.

Næsti leikur KA verður útileikur gegn sterku liði Hamars og fer hann fram laugardaginn 20. nóvember næstkomandi. Liðin mætast tvívegis þessa helgi en seinni leikurinn fer fram daginn eftir, sunndag 21. nóvember. Fylkir spilar einnig sunnudaginn 21. nóvember en þá mætir liðið Aftureldingu á heimavelli.

Mynd – Þórir Tryggvason