[sam_zone id=1]

Ævarr og Galdur í úrslit

Lið BK Marienlyst vann í dag sinn þriðja sigur gegn Middelfart og vann þar með einvígi liðanna í undanúrslitum dönsku úrslitakeppninnar.

Ævarr Freyr Birgisson og Galdur Máni Davíðsson leika með liði Marienlyst en í þessari undanúrslitarimmu mætti liðið nágrönnum sínum í Middelfart. Marienlyst leiddi einvígið 2-1 fyrir leik dagsins sem fór fram á heimavelli Marienlyst. Hinir þrír leikirnir höfðu allir verið æsispennandi og nú var Irvan Brar, besti leikmaður Middelfart á tímabilinu, kominn aftur í lið gestanna eftir stutta fjarveru vegna meiðsla.

Fyrsta hrina leiksins var hnífjöfn en Marienlyst hafði yfirhöndina undir lokin, 23-21 yfir. Þeir náðu þó ekki að klára hrinuna og skoraði Middelfart næstu 4 stig, þeir unnu því 23-25 og leiddu 0-1. Næstu tvær hrinur voru hins vegar eign Marienlyst frá upphafi en liðið vann þær 25-20 og 25-18. Marienlyst var því komið með yfirhöndina og leiddi leikinn 2-1.

Spennan var öllu meiri í fjórðu hrinunni en um miðja hrinuna sigu gestirnir fram úr. Middelfart náði mest 6 stiga forystu þegar liðið leiddi 16-22 en heimamenn minnkuðu muninn og náðu að knýja fram upphækkun. Að lokum vann Marienlyst ótrúlegan 30-28 sigur í hrinunni og vann leikinn því 3-1. Marienlyst vann einvígið því einnig 3-1 og mætir Gentofte í úrslitunum um danska meistaratitilinn.

Enn er ekki komin dagsetning fyrir úrslitaleikina en líklegt er að einvígið hefjist beint eftir páska. Gentofte hefur verið nánast óstöðvandi í vetur og varð deildarmeistari án nokkurra vandræða. Middelfart vann þó bikarinn með því að vinna 3-0 sigur gegn Gentofte en það er eina tap liðsins á tímabilinu. Gentofte og Marienlyst hafa mæst tvisvar þetta tímabilið og hefur Gentofte unnið 3-0 í bæði skipti. Ævarr og Galdur eiga því afar erfitt verkefni fyrir höndum og verður spennandi að sjá hvort þeir geti gert Gentofte erfitt fyrir.

Galdur kom ekki við sögu í dag en Ævarr lék allan leikinn og skoraði 9 stig fyrir Marienlyst. Stigahæstur í liði þeirra var hins vegar Sigurd Varming með 29 stig og Martijn Van der Aa skoraði 18 stig, þar af 10 úr hávörn. Hjá Middelfart var Shayne Beamer stigahæstur með 16 stig og George Thompson skoraði 12 stig.