[sam_zone id=1]

Ævarr og Galdur í undanúrslitin

Lið BK Marienlyst vann í kvöld oddaleik gegn Aarhus í úrslitakeppninni í Danmörku.

Ævarr Freyr Birgisson og Galdur Máni Davíðsson leika báðir með liði Marienlyst og voru þeir jafnframt báðir í byrjunarliðinu í kvöld. Marienlyst átti heimavallarréttinn og var þriðji leikur einvígisins, og jafnframt oddaleikurinn, því spilaður á heimavelli þeirra í Odense. Marienlyst hafði unnið fyrsta leikinn en Aarhus kom til baka og vann leik númer tvö.

Leikurinn í kvöld var æsispennandi, líkt og hinir tveir, en það voru heimamenn í Marienlyst sem unnu fyrstu hrinuna nokkuð sannfærandi, 25-21. Gestirnir voru hins vegar mun sterkari til að byrja aðra hrinuna og náðu 6 stiga forystu í upphafi hennar. Marienlyst saxaði smám saman á forystuna og sneri taflinu við í seinni hluta hrinunnar. Marienlyst leiddi 24-18 en hleypti Aarhus aftur inn í leikinn. Heimamenn sluppu þó með skrekkinn og unnu hrinuna 25-23.

Þriðja hrina leiksins var einnig afar jöfn en lið Marienlyst var enn og aftur sterkara á lokasprettinum og vann 25-22. Íslendingaliðið vann leikinn því 3-0 og tryggði sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar í Danmörku. Þar mætir liðið nágrönnum sínum og nýkrýndum bikarmeisturum í Middelfart. Í undanúrslitum og úrslitum þarf að vinna þrjá leiki til að sigra einvígið.

Ævarr Freyr og Galdur Máni léku allan leikinn í liði Marienlyst og gerðu báðir vel. Ævarr skoraði 7 stig í leiknum og Galdur skoraði 4 stig, þar af tvö úr hávörn.