[sam_zone id=1]

Æsispennandi leikur í Neskaupstað

Þróttur Nes og Fylkir mættust í dag í Mizunodeild karla en leikið var í Neskaupstað.

Þróttur Nes hafði nú þegar spilað einn leik og var það tapleikur gegn Hamri. Fylkir átti hins vegar enn eftir að byrja tímabil sitt af alvöru þar sem að fyrsta leik þeirra var frestað. Leikurinn í dag var mjög spennandi til að byrja með en Þróttarar höfðu þó nauma forystu stærstan hluta fyrstu hrinu. Fylkismenn náðu að minnka muninn í 24-23 undir lokin en Þróttur vann hrinuna þó 25-23 og leiddi leikinn 1-0.

Eitthvað sat þessi niðurstaða í gestunum sem náðu sér aldrei á strik í annarri hrinu og vann Þróttur Nes hana nokkuð auðveldlega. Fylkir náði að laga leik sinn, og í leiðinni stöðuna, töluvert undir lok hrinunnar en henni lauk þó með 25-20 sigri heimamanna. Þriðja hrina var keimlík þeirri fyrstu en nú leiddi Fylkir. Síðustu stig hrinunnar voru æsispennandi og lauk hrinunni með sigri Fylkis eftir upphækkun, 25-27.

Ekki var spennan minni í fjórðu hrinunni og var hnífjafnt undir lokin. Fylkir átti möguleika á að koma leiknum í oddahrinu í stöðunni 23-24 en heimamenn gáfust ekki upp og náðu að knýja fram 26-24 sigur. Þeir unnu leikinn þar með 3-1 og taka öll þrjú stigin úr jöfnum og spennandi leik. Miguel Angel Ramos Melero var stigahæstur allra en hann skoraði 24 stig fyrir Þrótt Nes. Bjarki Benediktsson skoraði 17 stig fyrir Fylki.

Mynd : Facebook síðan Hveragerði Myndabær