[sam_zone id=1]

Æsispennandi leikur gegn Svíþjóð

Kvennalið Íslands á NEVZA U19 í Finnlandi lék sinn annan leik í kvöld þegar liðið mætti Svíþjóð.

Fyrr í dag mættu stelpurnar liði Finnlands og léku íslensku stelpurnar vel. Þrátt fyrir það vann Finnland 3-0 sigur í leiknum enda er það venjan að þau finnsku sendi afar sterk lið til leiks. Nú undir kvöld mættu þær svo liði Svíþjóðar í seinni leik sínum í dag en þar byrjuðu þær hreint út sagt frábærlega í fyrstu hrinu leiksins. Ísland hafði öruggt forskot um miðja hrinu en þrátt fyrir góðan lokakafla hjá sænska liðinu unnu þær íslensku 25-27 sigur og leiddu 0-1.

Í annarri hrinu leiksins voru það sænsku stelpurnar sem byrjuðu betur og höfðu nokkuð þægilegt forskot um miðja hrinuna. Íslensku stelpurnar gáfust hins vegar ekki upp og minnkuðu muninn töluvert. Ísland náði að jafna leikinn í annarri hrinunni en náði forystunni þó ekki aftur, Svíþjóð vann 25-23 eftir spennandi lokakafla og jafnaði 1-1.

Þriðja hrina leiksins var ansi sveiflukennd en sænska liðið hafði forystuna nánast alla hrinuna. Munurinn var mestur sjö stig um miðja hrinu en aftur náði Ísland að minnka muninn töluvert og varð lokakaflinn spennandi líkt og í fyrstu tveimur hrinunum. Ísland komst yfir undir lok hrinunnar en að lokum vann Svíþjóð þriðju hrinuna 28-26 og leiddi nú leikinn 2-1.

Enn var jafnt í fjórðu hrinu og eftir að hafa verið skrefi á eftir jafnaði íslenska liðið í stöðunni 20-20. Spennan hélt því áfram líkt og í fyrri hrinum leiksins en Svíþjóð vann hrinuna 25-22 og leikinn þar með 3-1. Þær sænsku vinna því sætan sigur í þessum hörkuleik en Ísland bíður enn eftir fyrsta sigrinum á mótinu.

Eftir langan dag á kvennaliðið einnig tvo leiki á morgun. Þær mæta Danmörku klukkan 9 á íslenskum tíma en seinna um daginn mæta þær svo liði Færeyja og hefst sá leikur klukkan 15 á íslenskum tíma. Drengirnir mæta Noregi í fyrramálið en sigurlið leiksins kemst í undanúrslit mótsins. Leikurinn hefst klukkan 7 á íslenskum tíma og mætir sigurliðið Danmörku í öðrum undanúrslitaleiknum. Á sunnudag verður svo leikið um sæti í bæði karla- og kvennaflokki.