[sam_zone id=1]

Marienlyst leikur um 5.-10. sæti

Ævarr Freyr Birgisson og félagar í Boldklubben Marienlyst tóku á móti ASV Elite í oddaleik í átta liða úrslitum dönsku úrslitakeppninnar í gærkvöldi. Marienlyst áttu heimaleikjarétt en þar sem höllin þeirra er 15 cm of lág fyrir odda- og úrslitaleiki var leikið í Middelfart.

Liðin höfðu hvort fyrir sig unnið á útivelli, ASV 3-0 í Óðinsvéum og Marienlyst 3-1 í Árósum.

ASV hófu leikinn betur og voru yfir megnið af fyrstu hrinunni. Marienlyst unnu hægt og bítandi niður forskotið og staðan var jöfn í 20-20. ASV skoruðu næstu 4 stigin og unnu hrinuna 21-25.

ASV voru yfir í upphafi annarrar hrinunnar, 1-2, en þá settu Marienlyst í sjötta gír og skoruðu 14 stig í röð. Sterkar uppgjafir og hávörn Marienlyst ásamt vandræðum í móttöku- og sóknarleik ASV gerðu það að verkum að Marienlyst unnu hrinuna 25-11.

Þriðja hrinan var nokkuð jöfn allan tímann en ASV höfðu betur að lokum og unnu hana með minnsta mun, 23-25. Þeir unnu fjórðu hrinuna einnig, 19-25, og leikinn þar með 1-3 og tryggðu sér sæti í undanúrslitum.

Marienlyst leikur því um 5.-10. sæti og er fyrsti leikurinn fimmtudaginn næstklomandi gegn Ishøj Volley.