[sam_zone id=1]

Zaksa náði í sigur í Rússlandi

Meistaradeild karla fór aftur af stað í gær þegar 8-liða úrslit keppninnar hófust.

Riðlakeppninni lauk í febrúar og því voru 8-liða úrslitin næst á dagskrá. Leikið er heima og að heiman en 3-0 og 3-1 sigrar gilda jafnt á meðan að 3-2 sigur gildir minna. Til dæmis dugar því liði sem vinnur fyrri leik 3-0 eða 3-1 að vinna tvær hrinur í seinni leik. Útsláttarkeppnin býður alltaf upp á mikla spennu og er útlit fyrir að það haldi áfram í ár.

Fyrirfram var búist við því að ítölsku stórliðin Perugia og Lube myndu vinna sín einvígi enda hafa bæði lið verið öflug í allan vetur. Lube vann 0-3 sigur í Belgíu og Perugia vann 1-3 sigur í Rússlandi svo að bæði lið eru í fínum málum fyrir seinni leiki sína. Þá vann Zaksa mikilvægan 2-3 sigur gegn Kuzbass Kemerovo í Rússlandi.

Síðasti leikur umferðarinnar var Trentino gegn Jastrzebski og átti hann að fara fram á heimavelli Trentino á Ítalíu. Vegna kórónaveirunnar var leiknum þó frestað en einnig var tveimur leikjum í 8-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna frestað, auk nokkurra leikja í öðrum keppnum innan CEV.

Seinni umferð 8-liða úrslitanna fer fram í næstu viku, dagana 10.-12. mars. Óljóst er hvenær þeir leikir sem var frestað muni fara fram en það kemur í ljós á næstu dögum.

Úrslit vikunnar

Knack Roeselare 0-3 Cucine Lube Civitanova (29-31, 14-25, 16-25). Hendrik Tuerlinckx skoraði 12 stig fyrir Roeselare og Andreas-Dimitrios Fragkos skoraði 11 stig. Hjá Lube var Osmany Juantorena stigahæstur með 15 stig en næstur kom Kamil Rychlicki með 12 stig.

Trentino Itas – Jastrzebski Wegiel (Frestað um óákveðinn tíma)

Fakel Novy Urengoy 1-3 Sir Sicoma Monini Perugia (23-25, 21-25, 25-22, 21-25). Krisztian Padar skoraði 21 stig fyrir Fakel en Dmitrii Volkov skoraði 19 stig. Aleksandar Atanasijevic skoraði 17 stig fyrir Perugia og Wilfredo Leon bætti við 16 stigum.

Kuzbass Kemerovo 2-3 Zaksa Kedzierzyn-Kozle (25-22, 24-26, 25-17, 26-28, 14-16). Victor Poletaev skoraði 24 stig fyrir Kemerovo og Evgeny Sivozhelez skoraði 16 stig. Kamil Semeniuk skoraði 19 stig fyrir Zaksa og Arpad Baroti bætti við 18 stigum.